Stök frétt


Umhverfisstofnun tók þann 4. mars ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi fyrir Eldisstöðina Ísþór hf. í Þorlákshöfn vegna landeldis með hámarks lífmassa allt að 1.800 tonn. Eldisstöðin Ísþór hf. hefur verið með leyfi fyrir eldi á allt að 600 tonnum á sama stað og er því um aukið eldið að ræða. Starfsleyfið hefur nú verið afhent rekstaraðila ásamt rekstarleyfi Matvælastofnunar.

Að mati Umhverfisstofnunar munu helstu áhrif aukningarinnar vera í formi aukins magns næringarefna bæði á föstu formi og uppleystu sem munu verða losuð í viðtakann. Áætluð losun næringarefna verður undir þeim mörkum sem almennt er miðað við varðandi losun í sjó. Í starfsleyfi eru ákvæði þar sem hægt er að gera aukna kröfum um hreinsun fari rekstaraðili yfir þau mörk sem sett hafa verið í leyfið.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi, sbr. 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, til eldis með hámarks lífmassa á hverjum tíma allt að 1.800 tonnum, á tímabilinu 12. janúar til og með 10. febrúar 2021. Auglýsingin var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar þann 12. janúar ásamt gögnum sem lágu til grundvallar tillögunni. Heimilt var að gera athugasemdir við tillöguna á sama tímabili. Tilkynning um opinbera auglýsingu var send rekstraraðila, til sveitarfélagsins Ölfus, til heilbrigðiseftirlits Suðurlands b.t. heilbrigðisnefndar og á aðra hagsmunaaðila sama dag og hún var birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

Greinargerð vegna útgáfunnar fylgir leyfinu þar sem m.a kemur fram að engar athugasemdir hafi borist vegna tillögunnar á auglýsingatíma.

Tengd skjöl
Ákvörðun um útgáfu Eldisstöðin Ísþór hf.
Starfsleyfi Eldisstöðin Ísþór hf.