Umhverfistofnun - Logo

Þjórsárdalur

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Skógræktarinnar, Minjastofnunar Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa undanfarið unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir landslagsverndarsvæði í Þjórsárdal sem friðlýst var í janúar 2020.

Þjórsádalur býr yfir jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háafossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Á svæðinu eru einnig mikil tækifæri til útivistar og sjálfbærrar ferðamennsku. 

Sérstaða svæðisins felst einkum í einstakri náttúru, sérstökum jarðmyndunum og menningarminjum sem vitna til um mannvistir á svæðinu á fyrri tímum, t.a.m. eru rústir bæjarins að Stöng innan svæðisins. 

Þá er einnig að finna í dalnum merka sögu varðandi endurheimt birkiskóga og uppgræðslu vikra sem unnið hefur verið að síðan árið 1938 með það að markmiði að endurheimta birkiskóga til að gera landsvæðið betur í stakk búið til að standast áföll, s.s. vegna öskufalls úr eldgosum.

Svæðið er friðlýst sem landslagsverndarsvæði en innan þess eru náttúruvættin Hjálparfoss, Gjáin og Háifoss og Granni.

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun landslagsverndarsvæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.
Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Áætlunin er sett fram í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Hægt er að kynna sér drög að áætluninni og aðgerðaáætlun sem henni fylgir hér fyrir neðan og skila inn ábendingum.

Frestur til að skila inn athugasemdum rann út 24. apríl

Innkomnar athugasemdir: