Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur endurskoðað ákvörðun um álagningu dagsekta á Vestmannaeyjabæ vegna ófullnægjandi mengunarvarna sorporkustöðvar bæjarins. Tilgangur dagsektanna var að knýja fram úrbætur í mengunarvörnum sorporkustöðvarinnar varðandi ryk, úrgangsvatn og neyðaráætlun.

Í bréfi dagsettu 9. maí sl. þar sem ákvörðun um álagningu dagsekta var tilkynnt Vestmannaeyjabæ er hin formlega úrbótakrafa miðuð við ryk í útblæstri þó svo að í bréfinu sé einnig ítarlegri umfjöllum um aðra mengunarþætti. Dagsektirnar voru lagðar á frá 1. júlí sl.  Þann 6. júlí skilaði Vestmannaeyjabær inn mæliniðurstöðum sem sýndu að útblásturgildi fyrir ryk var komið inn fyrir skekkjumörk. Við það tækifæri lækkaði Umhverfisstofnun dagsektirnar en felldi þær ekki niður enda var litið svo á að þær væru einnig til komnar vegna annarra mengunarþátta. Vestmannaeyjabær gerði athugasemd við þessa túlkun.

Að vel athuguðu máli hefur Umhverfisstofnun fallist á að skort hafi á skýrleika ákvörðunarinnar hvað varðar þau frávik frá starfsleyfi sem ákvörðun um álagningu dagsekta tók til að öðru leyti en varðar ryk í útblæstri. Dagsektir hafa því verið endurreiknaðar og leiðréttar og leggjast einungis á frá 1. júlí til og með 5. júlí 2011, samtals kr. 125.000.

Samhliða framangreindri ákvörðun fylgir Umhverfisstofnun eftir að bætt verði úr öðrum atriðum sem er ábótavant í mengunarvörnum sorporkustöðvarinnar. Stofnunin hefur sent Vestmannaeyjabæ kröfu um úrbætur og áform um áminningu vegna þessa, þar sem meðal annars er farið fram á að nýjar mælingar verði gerðar á díoxíni í úrgangsvatni stöðvarinnar.