Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Umhverfisstofnun áformaði í mars á þessu ári að leggja dagsektir á Sveitarfélagið Skagafjörð vegna sjö frávika frá kröfum sem gerðar eru til urðunarstaða.

Á fundi 16. apríl 2012 urðu starfsleyfishafi og Umhverfisstofnun sammála um að heppilegra væri að loka urðunarstaðnum á Skarðsmóum og koma urðun sláturúrgangs í annan farveg frekar en að leggja í framkvæmdir og tilkostnað til að láta urðunarstaðinn uppfylla kröfur um jarðfræðilegan tálma og botnþéttingu, sem eitt frávikið snérist um. Áætlun sveitarfélagsins um að hætta urðun á Skarðsmóum frá 1. október 2012 var samþykkt af Umhverfisstofnun í bréfi dagsettu 10. maí 2012.

Á mánuðunum á eftir bárust staðfestingar á fullnægjandi úrbótum á öllum frávikum nema því sem varðaði jarðfræðilegan tálma og botnþéttingu, og voru úrbæturnar hinna frávikanna staðfestar sem fullnægjandi af hálfu Umhverfisstofnunar með frestun álagningar dagsekta. 

Þann 3. október 2012 barst Umhverfisstofnun lokunaráætlun vegna urðunarstaðarins á Skarðsmóum ásamt staðfestingu frá sveitarstjóra um að urðun þar hafi verið hætt og sláturúrgangi sé nú ekið til urðunar í Stekkjarvík. Í ljósi þessa telur Umhverfisstofnun rétt að falla frá kröfum um jarðfræðilegan tálma og botnþéttingu þar sem staðurinn er nú kominn í lokunarferli. Umhverfisstofnun staðfestir hér með að eftirfylgni vegna þeirra frávika sem komu fram við eftirlit árið 2011 er nú lokið og fallið er frá áformum um álagningu dagsekta.

Umhverfisstofnun vill þakka Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir góða samvinnu við úrlausn þessa máls og hrósa Skagfirðingum fyrir ábyrga afstöðu í úrgangsmálum.