Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Málningu hf. en eldra starfsleyfi fyrirtækisins var útrunnið. Veitt hefur verið starfsleyfi til að framleiða árlega allt að 2,2 milljónir lítra af málningu, 150.000 lítra af þynnum og 150.000 lítra af lími og lakki í verksmiðjunni, auk þess að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyrir beint undir starfsemina. Þetta er sams konar heimild og var í fyrra starfsleyfi fyrirtækisins.

Starfsleyfistillaga fyrir Málningu hf. var auglýst á tímabilinu 17. mars til 12. maí s.l. og frestur til að gera athugasemdir var til 12. maí. Ein umsögn barst á auglýsingatíma en hún kom frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Í umsögninni komu fram nokkur atriði varðandi fráveitumál verksmiðjunnar, auk athugasemda um orðalag í kafla um hávaða sem bent var á að betur mætti fara. Umhverfisstofnun endurskoðaði þau atriði sem umsögnin fjallaði um og breytti nokkrum greinum starfsleyfisins frá auglýstri tillögu. Einkum var það tilefni til breytinga að skýrt þarf að koma fram í leyfinu að ekki sé ásættanlegt að lyktsterk efni og leysiefni fari í frárennsli frá fyrirtækinu. Með fréttinni fylgir greinargerð sem lýsir nánar hverju hefur verið breytt frá auglýstri tillögu og af hverju.

Starfsleyfi Málningar hf. öðlast þegar gildi og gildir til 20. júní 2032.

Tengd gögn