Stök frétt

Myndin er fengin úr gögnum frá Olíudreifingu ehf

Umhverfisstofnun hefur gefið út ráðgefandi álit um endurnýtingu úrgangs fyrir framleiðslu á svokallaðri verksmiðjuolíu sem unnin er úr úrgangsolíu sem rekstraraðili tekur á móti. Álit þetta um endurnýtingaraðgerð Olíudreifing ehf. snýst um hvort úrgangur hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerð fyrirtækisins, sbr. reglugerð um endurnýtingu úrgangs.

Umhverfisstofnun telur að Olíudreifing ehf. hafi sýnt fram á að framleiðsluvara fyrirtækisins muni geta uppfyllt skilyrði og að fullnægjandi verkferlar verði til staðar til að tryggja að varan uppfylli ávallt settar kröfur ef farið verður eftir tilteknum forsendum sem koma fram í álitinu og ef varan stenst staðla fyrir eldsneyti. Til grundvallar álitinu er m.a. að eftirlit þurfi að vera gott með því að viðunandi hráefni berist til framleiðslunnar og að gerðar verði mælingar á öllum framleiðslulotum þannig að gæði afurðarinnar verði alltaf þekkt.

Að lokinni endurnýtingaraðgerð er það því álit Umhverfisstofnunar að úrgangurinn sé hættur að vera úrgangur en geti flokkast sem vara, sjá hér

Með viðlíka ráðgefandi áliti stofnunarinnar gefst þeim fyrirtækjum sem framleiða afurðir með því að endurnýta úrgang, tækifæri til að markaðssetja úrgangsafurð sína sem vöru. Þar með opnast leið til að breyta úrgangi aftur í vöru, með endurnýtingaraðgerð, jafnvel þótt ekki liggi fyrir sérstök viðmið um lok úrgangsfasa. Í reglugerð um lok úrgangsfasa koma fram þau sérstöku viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tilteknar gerðir brotajárns, glerbrot og koparrusl. Tilgangur þess að skera úr um lok úrgangsfasa er að stuðla að hringrænu hagkerfi og sjálfbærari auðlindanýtingu þar sem hráefni haldast innan hagkerfisins.

Við gerð ráðgefandi álits tekur Umhverfisstofnun einkum mið af eftirfarandi fjórum matsþáttum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1078/2015: 

  1. Að úrganginum verði breytt í vöru sem hægt sé að setja á markað.
  2. Að hægt sé að nota úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð á sambærilegan hátt og sambærilega vöru á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  3. Að hægt sé að geyma úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð og nota hann á þann hátt að hann valdi ekki verri umhverfisáhrifum en sambærileg vara á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  4. Að umsækjandi tryggi að varan uppfylli ávallt settar kröfur.

Umsækjendum ber að skila inn ítarlegum upplýsingum um endurnýtingarferli sitt, þann úrgang sem á að endurnýta og framleiðsluvöruna svo unnt sé að veita ráðgefandi álit byggt á ofangreindum matsþáttum.