Stök frétt

Við fyrstu vöktun ársins á ströndinni Bakkavík á Seltjarnarnesi þann 18. janúar sl. fannst talsvert af dæmigerðu rusli fyrir þá strönd. Til dæmis sælgætisumbúðir, haglaskothylki, blautklútar, golfkúlur, afskurðir af fiskinetum og óþekkjanleg plastbrot í ýmsum stærðum.  

Þar fundust einnig tveir hlutir úr plasti sem ekki hefur verið hægt að bera kennsl á. Glær hringlaga sekkur og rauður borði. Getur þú aðstoðað okkur? 

Ef þú þekkir hlutina máttu gjarnan skrifa athugasemd við færsluna á Facebook eða senda okkur línu á ust@ust.is 

Ferðin var fyrsta vöktun af fjórum á ströndina Bakkavík á þessu ári. 

Um vöktun stranda

Umhverfisstofnun hóf að vakta rusl á ströndum sumarið 2016. Vöktunin er gerð samkvæmt leiðbeiningum OSPAR samningsins um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins.

Á hverri strönd er fyrir fram afmarkað svæði vaktað. Tilgangur vöktunarinnar er að:

  • Finna uppruna rusls á ströndum
  • Skoða hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir
  • Meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil
  • Fjarlægja ruslið

Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum.

Umhverfisstofnun sér í flestum tilfellum um framkvæmd vöktunarinnar með aðstoð viðkomandi sveitarfélags og/eða landeigenda.

Meira um vöktun stranda

 

Mynd: Rusl sem fannst við vöktun á Rauðasandi í júlí 2021.