Stök frétt

Mynd: Geysissvæðið í Haukadal / Unsplash

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði í vikunni grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Heildarúthlutun fyrir árið 2022 er rúmlega 914 milljónir kr. og þar af hlaut Umhverfisstofnun um 545 milljónir kr. 

Fjármunirnir fara í 37 verkefni á náttúruverndarsvæðum í umsjá Umhverfisstofnunar vítt og breytt um landið.

Stærsta einstaka úthlutunin í ár, rúmlega 152 milljónir kr., fer í göngustígagerð við Geysi í Haukadal.

Brýnt að bæta innviði við Geysi

Geysissvæðið var friðlýst árið 2020 og er fjölsóttasta náttúruverndarsvæðið í umsjón Umhverfisstofnunar. Árið 2021 heimsóttu um 550 þúsund manns Geysi. Þegar ekki stendur yfir heimsfaraldur þá heimsækja svæðið yfir 1 milljón manns á ári. 

Það er brýnt að bæta innviði við Geysi svo þessi fjöldi sem heimsækir svæðið hjóti þar góða upplifun og svo hægt sé að vernda svæðið til framtíðar. Þá er einnig mikilvægt að tryggja gott aðgengi fyrir alla, m.a. hreyfihamlaða.

Geysir er eitt af þeim svæðum á Íslandi sem tekur þátt í svokölluðu Vörðu verkefni. Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- og heimsvísu og hafa að geyma m.a. sérstæð náttúrufyrirbæri eins og er að finna á Geysis svæðinu. Verkefnið gengur út á heilstæða nálgun við stjórnun áfangastaðanna.

Fleiri svæði njóta góðs af

Unnið hefur verið að mörgum góðum verkefnum víða um land á undanförnum árum. Ráðherra nefndi í ræðu sinni nokkur stór göngustígaverkefni sem verður haldið áfram með á árinu. 

Þar má nefna göngustíg innan Landslagsverndarsvæðisins í Þjórsárdal. Stígurinn liggur frá þjóðveldisbænum Stöng að Gjánni. Í ár verður haldið áfram með verkefnið og farið í viðhald og uppbyggingu göngustíga ofan í Gjánni sjálfri. Lögð er áhersla á að vinna með staðbundið efni eins og kostur er og að stígarnir falli sem besta að umhverfinu, svokallaðir „náttúrustígar“. 

Mynd: Göngustígur í Þjórsárdal / Hákon Ásgeirsson.

Fjöldi annarra staða munu njóta góðs af, til dæmis:

Umhverfisstofnun leggur mikla áherslu á að uppbygging innviða á náttúruverndarsvæðum sé faglega unnin og stuðli að aukinni náttúruvernd, aðgengi og betri upplifun gestanna.

Nánar um úthlutunina