Nánar um ETS

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu. Tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi með viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan bandalagsins var tekin inn í EES-samninginn árið 2007 og hafa EFTA-ríkin verið þátttakendur í viðskiptakerfinu frá árinu 2008. 

Viðskiptakerfið byggist þannig upp að losun gróðurhúsalofttegunda frá tiltekinni starfsemi á EES-svæðinu er gerð háð losunarheimildum. Í því felst að rekstraraðila starfseminnar ber árlega að afhenda lögbæru yfirvaldi í viðkomandi ríki losunarheimildir í samræmi við losun síðastliðins árs. Ef rekstraraðili afhendir ekki tilskilinn fjölda losunarheimilda ber viðkomandi ríki að knýja fram efndir með viðurlagaákvæðum, m.a. með álagningu sekta. Ákveðinn er heildarpottur losunarheimilda fyrir sambandið allt og minnkar hann með hverju ári. Losunarheimildum þessum er að hluta til úthlutað endurgjaldslaust til rekstraraðila og að hluta til eru þær boðnar upp. Ef rekstraraðilar eiga fleiri losunarheimildir en þeir þurfa að nota geta þeir selt þær á markaði og að sama skapi geta þeir keypt losunarheimildir ef upp á vantar. Þannig myndar viðskiptakerfið hagrænan hvata til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að fjárfesta í umhverfisvænni tækni eða hagræða með öðrum hætti í rekstri sínum. Með því geta fyrirtæki komist hjá kaupum á losunarheimildum og jafnvel selt umframheimildir á sameiginlega markaðnum. Ætla má að það velti á markaðsvirði losunarheimilda á hverjum tíma hvort fyrirtæki kjósa að draga úr losun í starfsemi sinni eða kaupa losunarheimildir. Viðskipti með losunarheimildir eru því til þess fallin að beina mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum þangað sem þær eru ódýrastar. Í þessu samhengi skiptir máli að vegna hnattræns eðlis loftslagsvandans er almennt álitið að ekki skipti máli hvar á jarðarkringlunni samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fer fram. Gert er ráð fyrir að verð á losunarheimildum hækki eftir því sem á líður og losunarheimildum í viðskiptakerfinu fækkar.

Viðskiptakerfið hefur tekið miklum breytingum síðan því var fyrst komið á fót. Gildissvið þess hefur verið rýmkað og uppbyggingu þess breytt. Frá og með 1. janúar 2012 hefur allt flug innan EES heyrt undir gildissvið kerfisins og frá og með 1. janúar 2013 hefur kerfið bæði ná yfir fleiri tegundir staðbundinnar iðnaðarstarfsemi og fleiri tegundir gróðurhúsalofttegunda. Einn sameiginlegur pottur losunarheimilda er fyrir allt viðskiptakerfið fyrir tímabilið 2013–2020 og ákvarðanir um úthlutun byggjast á árangursviðmiðum sem eru þau sömu fyrir allt svæðið. 

Unnt er að afla losunarheimilda við úthlutun yfirvalda í viðkomandi ríki, á uppboði á vegum stjórnvalda, með þátttöku í loftslagsvænum verkefnum samkvæmt Kýótó-bókuninni og með viðskiptum á frjálsum markaði. Eftir að losunarheimildir eru komnar í umferð á sameiginlega markaðnum eru viðskipti með þær heimil jafnt lögaðilum sem heyra undir gildissvið tilskipunar 2003/87/EB og öðrum lögaðilum og einstaklingum sem kjósa að eiga slík viðskipti í fjárfestingarskyni eða í öðrum tilgangi.