Bringur, Mosfellsdal

Markmið friðlýsingar hluta jarðarinnar Bringna í Mosfellsdal sem fólkvangs er að vernda svæðið til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess sérstakar náttúru- og menningarminjar.

Friðlýsing svæðisins var undirrituð þann 20. apríl 2014.

Hvar eru Bringur?

Fólkvangurinn er í sveitarfélaginu Mosfellsbæ. Mörk friðlýsta svæðisins ná yfir hluta jarðarinnar Bringna. Mörkum fólkvangsins er þannig lýst í Auglýsingu um fólkvanginn Bringur í Mosfellsdal:

Mörk fólkvangsins liggja frá upphafspunkti á norðurbakka Köldukvíslar, um 250 metra ofan við Helgufoss (hnit punktur nr. 22). Frá þessum punkti liggja þau 330 metra í norðurátt og fylgja línu afmörkunar vatnsverndarsvæðis, austan við gamla bæjartúnið í Bringum og í punkt sem liggur um 250 metra sunnan við Nesjavallalínuveg. Síðan liggja mörkin 380 metra til norðvesturs, að upphafi gönguslóða sem liggur frá bílastæði inn á svæðið. Þaðan liggja mörkin til suðvesturs 370 metra þar til komið er á móts við neðri mörk bæjartúnsins (hnit punktur nr. 2). Þaðan liggja þau suður að Köldukvísl 125 m og síðan eftir miðri ánni að upphafspunkti.

Áhugavert

Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856. Jörðin fór í eyði árið 1966, en þar er að finna talsvert af mannvistarleifum á bæjarstæðinu og heimatúninu. Jörðin Bringur er norðan Köldukvíslar en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Handan árinnar, utan fólkvangsins, rís Grímansfell, sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar, og rétt við túngarðinn er Helgufoss í Köldukvísl. Vestan við fossinn eru Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, einnig nefndur Hrafnaklettur. Sagan segir að þar sé mikil huldufólksbyggð. Seljarústirnar vitna um löngu horfna atvinnuhætti þegar búpeningur var hafður í seli yfir sumartímann. Þjóðtrúin hermir að Helgusel sé nefnt eftir Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss, en önnur skýring á nafngiftinni byggir á því að landsvæðið var fyrrum í eigu kirkjustaðarins á Mosfelli og upphafleg merking nafnsins væri þá hið helga sel.

Örskammt frá túnfætinum í Bringum má sjá leifar af þjóðbraut, svonefndum Bringnavegi, sem lagður var árið 1910. Vegur þessi var tengileið milli Mosfellsdals og gamla Þingvallavegarins sem lá yfir Mosfellsheiði til Þingvalla.