Alþjóðlegir samningar

Ísland er aðili að allmörgum alþjóðlegum samningum um umhverfismál. Fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem Íslendingar urðu aðilar að var OILPOL en hann var gerður árið 1954 og fjallar um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu. Þeir samningar sem fylgdu í kjölfarið fjalla um takmarkanir og bann við losun hættulegra efna og úrgangsefna í hafið og jafnframt um varnir gegn mengun frá landi. Einn mikilvægasti samningur sem Ísland er aðili að er Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Í 12. kafla hans er ítarlega fjallað um vernd hafsins og auðlinda þess gegn mengun og öðrum umhverfisspjöllum. Ísland er jafnframt aðili að EES (Evrópska efnahagssvæðinu) og fjalla margar tilskipanir á þess vegum um umhverfismál. Alþjóðlegir samningar eru mikilvægir að því leyti að sömu lögin gilda á öllum höfum. Hvert ríki getur þó sett strangari sérákvæði í eigin lög um vernd umhverfisins og hafsins innan sinnar lögsögu. Ríkin koma sér síðan saman um hvaða lög og reglur eigi að gilda og framkvæma þær í samvinnu sín á milli eða fyrir tilstilli hlutaðeigandi alþjóðastofnunar. Í Hafréttarsáttmálanum kemur fram hvernig slíkri samvinnu skuli háttað. Í íslenskum rétti vega alþjóðasamningar þungt því þeir eru önnur meginheimildin um verndun hafsins.

 

Samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR)

OSPAR samningurinn kemur í staðinn fyrir Oslóar og Parísarsamningana en þær ákvarðanir, tilmæli og aðrir samningar sem samþykktir voru þá, halda gildi sínu hvað lagalegt eðli varðar. OSPAR samningurinn var undirritaður í París 22. september 1992 en öðlaðist gildi 25. mars 1998. Ísland varð aðili að samningnum 2. júní 1997. Samningurinn er mjög mikilvægur með tilliti til mengunarhættu á hafinu umhverfis Ísland. Markmið hans er að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum varps í hafið og brennslu úrgangs og mengun frá uppsprettum í hafi.

 

Samningurinn um varnir gegn mengun sjávar frá skipum (MARPOL

Olíumengun í hafi var ekki þekkt sem vandamál fyrr en á fyrri hluta 20. aldar, en upp úr 1950 fóru margar þjóðir að setja reglur varðandi losun olíuúrgangs innan eigin landhelgi. Árið 1954 hélt Bretland ráðstefnu varðandi olíumengun sem varð til þess að OILPOL var komið á fót. Á þessum tíma lagði Alþjóðasiglingastofnunin (IMO) ekki mikla áherslu á varnir gegn mengun og almenningur hafði ekki miklar áhyggjur af þessum málaflokki.

Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, með breytingum samkvæmt bókun 1978 (MARPOL 73/78) tók gildi árið 1983 og gerðist Ísland aðili að honum árið 1985. Markmið samningsins er að koma í veg fyrir og draga úr losun mengunarefna út í andrúmsloftið og í sjó frá skipum, þ.m.t. föstum og fljótandi pöllum. Fjöldi breytinga hafa verið gerðar á samningnum síðan 1984 og hefur hann nú að geyma 6 viðauka er varða:

  • olíu (viðauki I)
  • eitruð efni í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa (viðauki II)
  • hættuleg efni sem flutt eru í umbúðum eða lausum geymum og gámum (viðauki III)
  • skólp (viðauki IV)
  • sorp (viðauki V)
  • loftmengun (viðauki VI)

Ísland er aðili að þessum viðaukum að undanskildum viðaukum IV og VI.

Stokkhólmssamningurinn um þrávirk lífræn efni (POP

Sagt er að efni sé þrávirkt ef það binst í lífverum og eyðist mjög hægt. Slík efni safnast fyrir í umhverfinu. Þrávirk lífræn efni innihalda flest klór og er því oft talað um þrávirk lífræn klórsambönd. Efni af þessari tegund eru til í hundraðatali en þekktustu efnin eru skordýraeitur og önnur varnarefni eins og DDT (díklór-dífenýl-tríklóretan), hexaklórsýklóhexan (HCH, lindan), og hexaklórbensen (HCB). 

Kaupmannahafnarsamningurinn (Copenhagen Agreement

Kaupmannahafnarsamningurinn um mengun sjávar (norrænn samningur um samvinnu í baráttu gegn mengun sjávar af völdum olíu og annarra skaðlegra efna) fjallar um gagnkvæma samvinnu Norðurlandanna komi til óhappa af völdum olíu og annarra hættulegra efna. Samningurinn er byggður á OPRC (alþjóðasamningi um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun og samstarf þar um) og var hann gerður í mars 1993. Íslendingar staðfestu samninginn 3. júlí 1995 en hann öðlaðist ekki gildi fyrr en 16. janúar 1998.

Samningur um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á Norðurslóðum (Agreement on Cooperation on Marine Oil Pollution Preparedness and Response in the Arctic (MOSPA))

Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í maí 2013 var undirritaður lagalega bindandi samningur sem fjallar um samvinnu, samhæfingu og gagnkvæma aðstoð ríkja á Norðurslóðum í viðbrögðum við olíumengun á svæðinu til verndunar hafsins. Samningurinn felur í sér gagnkvæmar skuldbindingar norðurskautsríkjanna um að veita aðstoð komi til olíumengunar í/á hafi og um aukið samstarf, æfingar og upplýsingamiðlun milli viðbragðsaðila á svæðinu.

Ramsarsamningur (Ramsar Convention

Ramsarsamningurinn, eða „samningurinn um vernd votlendissvæða sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum sem heimkynni fugla“, dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem hann var samþykktur árið 1971. Höfuðskrifstofur Ramsarsamningsins eru í Gland í Sviss og í desember 2010 höfðu 160 lönd fullgilt Ramsarsamninginn, meðal annars öll Norðurlöndin.

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS

Fyrsta hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Genf í Sviss árið 1958 og var ætlunin að ákvarða hvaða þjóðréttarreglur giltu á sviði hafréttar. Á ráðstefnunni voru fjórir þjóðréttarsamningar samþykktir. Þeir voru annars vegar Genfarsamningurinn um landhelgi og aðlæg belti og hins vegar Genfarsamningurinn um landgrunnið en báðir tóku þeir gildi árið 1964.

Lundúnasamningur um varnir gegn mengun hafsins (London Convention)

Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það tók gildi árið 1975, en markmið hans er að stuðla að skilvirku eftirliti og stýringu á varpi úrgangs og mengunarefna í sjó og koma í veg fyrir mengun hafsins. Samingnum var breytt með bókun sem tók gildi árið 2006, en samkvæmt bókuninni er allt varp efna og hluta í hafið bannað, nema um sé að ræða efni sem tilgreind eru á viðauka I við bókunina. Ísland er aðili að samningnum og bókuninni.

Alþjóðasamningur um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun og samstarf þar um (OPRC)

Í júlí 1989 var samþykkt á fundi leiðandi iðnríkja í París að kalla eftir því við Alþjóðasiglingastofnunina (IMO) að þróaðar yrðu frekari leiðir til að koma í veg fyrir mengun frá skipum. Þetta var stutt á allsherjarþingi IMO í nóvember sama ár og hófst í kjölfarið vinna við gerð samnings sem miðaði að því að skapa ramma fyrir alþjóðlegt samstarf til bregðast við stórum mengunaróhöppum eða hættu á mengun sjávar. Samningurinn var samþykktur árið 1990 og öðlaðist gildi árið 1995. Ríkjum sem eru aðilar að samningnum er skylt að gera ráðstafanir til að geta brugðist við mengunaróhöppum, annað hvort á landsvísu eða í samstarfi við önnur ríki.

Ísland er aðili að samningnum sjálfum en ekki að bókun við samninginn frá árinu 2000 er varðar hættuleg og eitruð efni (OPRC-HNS Protocol).

Íhlutun á úthafi vegna olíumengunaróhappa (Intervention 1969)

Markmið alþjóðasamnings um íhlutun á úthafinu þegar óhöpp koma fyrir sem valda, eða geta valdið, olíumengun er að gera ríkjum kleift að grípa til aðgerða á úthafinu þegar slík óhöpp (skipsskaði) verða innan lögsögu þeirra. Samningurinn skilgreinir hvers konar aðgerðum ríkjum er heimilt að beita vegna skipsskaða á úthafinu til varnar gegn olíumengun, ef talið er að skipsskaðinn geti valdið tjóni á umhverfi og nytjum innan lögsögu þess sé ekkert að gert. Ríkjum er skylt grípa eingöngu til aðgerða sem nauðsynlegar eru og hafa samráð við hagsmunaaðila, einkum viðkomandi fánaríki, eigendur skips eða farms, og þar sem því verður við komið, óháða sérfræðinga sem tilnefndir eru. Samningurinn öðlaðist gildi árið 1975, en Ísland gerðist aðili að honum árið 1980.

Vegna aukinna efnaflutninga með skipum, þ.e. annarra efna en olíu sem við losun geta valdið skaðlegum áhrifum á lífríki sjávar, var samþykkt bókun við samninginn sem víkkar gildissvið hans þannig að hann taki einnig til efna sem tilgreind eru í viðauka við bókunina og efna með sambærilega eiginleika. Bókunin við samninginn tók gildi árið 1983 en Ísland er ekki aðili að henni.

Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum oliumengunar (CLC)

Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar skilgreinir ábyrgð skipseiganda ef skip hans veldur olíumengun í umhverfi sjávar, en samningurinn gildir eingöngu um olíuflutningaskip. Skipum sem flytja meira en 2.000 tonn af olíu í farmi er skylt að hafa vátryggingu eða aðra fjárhagslega tryggingu er svarar til þeirrar hámarksábyrgðar er samningurinn kveður á um. Vottorð um að slík trygging sé í gildi skal gefið út fyrir hvert skip og skal vottorðið haft um borð í skipinu. Samningurinn tók gildi árið 1975 og afmarkaðist landfræðilegt gildissvið hans við landhelgi samningsríkja. Með bókun við samninginn sem tók gildi 1996 og er ætlað að koma í stað upprunalega samningsins er gildissviðið útvíkkað þannig að það nær einnig til efnahagslögsögu samningsríkja. Með bókuninni er einnig bótaábyrgð skipaeigenda aukin umtalsvert.

Alþjóðasamningur um stofnun alþjóðasjóðs til að bæta tjón af völdum olíumengunar (IOPC Fund)

Alþjóðasjóðir (IOPC Funds) til að bæta tjón af völdum olíumengunar veita samningsríkjum fébætur vegna tjóns sem verður vegna olíumengunar frá olíuflutningaskipum. Markmiðið er að tryggja tjónþolum olíumengunar einhverja baktryggingu í þeim tilvikum þegar þær hámarksbætur sem skipseigendum er gert að greiða samkvæmt samningnum um einkaréttarlega ábyrgð duga ekki til að bæta það tjón sem þeir verða fyrir. Framlög í sjóðinn greiðast árlega af þeim innflutningsaðilum aðildarríkja sem flytja inn meira en 150.000 tonn á ári af gjaldskyldri olíu, eins og hún er skilgreind í samningnum.

Hvatinn að því að settur var á fót alþjóðasjóður til að bæta tjón af völdum olíumengunar var strand skipsins Torrey Canyon nálægt Scilly-eyjum suðvestur af Cornwallskaga í Bretlandi árið 1967, en strandið olli olíumengun á ströndum bæði í Bretlandi og Frakklandi. Þótti ljóst í kjölfar mengunaróhappsins að þörf væri á alþjóðlegum samningi um bótaábyrgð og bætur. Fyrsti samningurinn þess efnis tók gildi árið 1975 (1971 Fund Convention), en síðar þótti nauðsynlegt að auka bótaábyrgð fyrir stór mengunaróhöpp í ljósi reynslunnar og tók bókun við samninginn gildi árið 1996 (1992 Fund Convention). Ísland er aðili að þeirri bókun. Samningurinn frá 1971 féll úr gildi 24. maí 2002.

Í kjölfar stranda skipanna Erika árið 1999 og Prestige árið 2002 þótti rétt að auka mögulega bótafjárhæð enn frekar og var árið 2003 samþykkt bókun þess efnis (Supplementary Fund Protocol) en bókunin tók gildi árið 2005. Ísland er ekki aðili að þeirri bókun.