Umhverfisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins, sem undir stofnunina heyra, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eða faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila eða við hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd framkvæmd þvingunarúrræða samhliða eftirliti.
Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn innanríkisráðherra annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um svæði þar sem mengun getur borist á land ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs og stranda.
Sé um olíumengun að ræða er stuðst er við ákveðna litaflokkun til þess að átta sig á magninu, en út frá lit olíuflekksins er hægt að áætla hvert rúmmál olíunnar er. Taflan hér að neðan sýnir flokkunina
Olíutegund |
Útlit/þykkt |
Áætlað rúmmál (mm) |
Áætlað (m³/km²) |
Olíuslæða | Silfurgljái | >0.0001 | 0.1 |
Olíuslæða | Óreglulegur gljái | >0.0003 | 0.3 |
Hráolía og brennsluolía | Svart/dökk brúnt
| >0.1 | 100
|
Þeyti | Brúnt/ appelsínugult | >1.0 | 1000 |
Samband á milli útlits, þykktar og rúmmáls olíubrákar
Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal umhverfis- og auðlindaráðherra skipa átta fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna til fjögurra ára í senn. Umhverfisstofnun tilnefnir tvo fulltrúa og er annar þeirra formaður ráðsins. Hafnasamband Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, og skal hann vera starfandi heilbrigðisfulltrúi, og Samgöngustofa og Vegagerðin einn fulltrúa hvor. Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna er:
a. að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða,
b. að stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við bráðamengun,
c. að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og
d. að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.
Samgöngustofa, undir yfirstjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, annast meðal annars eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum.
Kaupmannahafnarsamkomulagið er samstarf Norðurlandanna um viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó.
EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, heldur utan um samstarf Evrópuríkja um viðbúnað og viðbrögð við megnun frá skipum.
Ísland er aðili að samningi Norðurskautsríkjanna um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á Norðurslóðum (MOSPA).