Nákuðungur

Vöktun á nákuðungi er notuð til að fylgjast með styrk lífrænna tinsambanda í lífríki sjávar og stig falskyns (imposex) af þeirra völdum. Vöktunin hófst á Íslandi árið 1992 og hefur farið fram á 5 ára fresti. Fyrstu árin var nákuðungi safnað á 45 stöðum við landið en með minnkandi áhrifum var þeim fækkað jafnt og þétt. Árið 2018 voru upprunalegu vöktunarstöðvarnar 12 og 3 nýjum bætt við á Suðurnesjum. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum sá um sýnatökur og greiningar á falskyni árið 2018, ásamt undirbúningi sýna fyrir efnagreiningar, samantekt gagna og skilum gagna í gagnagrunn ICES.

 Tríbútýltín (TBT) var lengi notað í botnmálningu skipa til að hindra vöxt gróðurs og lífvera. TBT getur valdið eitrun í lífverum og hefur styrkur TBT einnig áhrif á myndun falskyns (VDSI; Vas Deferens Sequence Index) hjá kvenkyns nákuðungum en tegundin er afar viðkvæm fyrir slíkri mengun. VDSI er skipt í 7 stig þar sem stig 0 gefur til kynna engin áhrif og stig 5 og 6 mest áhrif þar sem sáðrás er fullmótuð og vaxin fyrir kynopið og penis orðinn stór. Þrátt fyrir bann við notkun TBT í botnmálningu skipa og báta hér á landi síðan 1990 sjást ennþá áhrif á nákuðunga, en ástandið hefur þó batnað mikið frá upphafi vöktunar. Í mati OSPAR á áhrifum mengunar á lífverur hefur verið sett viðmið (EAC, Environmental Assessment Criteria) fyrir styrk mengunarefna þar sem ekki er búist við langvarandi áhrifum á lífverur. EAC viðmiðið á stigi falskyns er 1 (rauð lína á myndum hér fyrir neðan). Líkt og önnur lífræn tinsambönd getur TBT bundist lífrænum ögnum og safnast upp í seti, sem þá getur virkað sem mengunaruppspretta slíkra efna í jafnvel áratugi. Það er því mikilvægt að vakta áfram áhrif og styrk þessara efna í lífríkinu. 


 
 

Skýrslur