Ósoneyðandi efni

Ábyrgðin liggur hjá rekstraraðila kerfanna eða eiganda ef rekstraraðili er ekki fyrir hendi.
Rekstraraðili er sá einstaklingur eða lögaðili sem ber raunverulega, tæknilega ábyrgð á búnaði/kerfum.
Kerfi sem inniheldur vetnisklórflúorkolefni (HCFC) má vera í notkun svo framarlega sem það lekur ekki og ekki er þörf á viðhaldi sem krefst þess að kælimiðillinn sé fjarlægður eða bætt á hann.
Um leið og nauðsynlegt er að fara í meiriháttar viðhald á kerfinu skal hætta starfrækslu þess eða skipta kælimiðlinum út fyrir miðil sem ekki eyðir ósonlaginu.
Inn- og útflutningur ósoneyðandi efna er bannaður.
Óheimilt er að flytja inn eða setja upp búnað sem notar ósoneyðandi efni.
Undanþága frá ofangreindu er einungis möguleg ef fyrirliggjandi er skýr heimild til þess í III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009. Kæmi til þess að veitt væri undanþága gæti hún engu að síður verið háð ströngum skilyrðum.
Umsóknir um undanþágu frá banni við innflutningi ósoneyðandi efna má senda á Umhverfisstofnun (ust@ust.is). Athugið að eftirfarandi skal koma skýrt fram í slíkri umsókn:
- Heiti efnis sem sótt er um undanþágu fyrir.
- Magn efnis sem sótt erum undanþágu fyrir.
- Fyrirhugaða notkun efnisins sem um ræðir.
- Kennitala þess sem sækir um undanþáguna.
- Skýr vísun í undanþáguákvæði reglugerðar (EB) 1005/2009 sem umsóknin byggir á. ATHUGIÐ: Undanþágur eru ekki veittar nema að skýr heimild til undanþágu sé fyrir hendi í III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009. Veittar undanþágur geta verið háðar ströngum skilyrðum.
Kæli- og frystiskápar, frystikistur og annar sambærilegur búnaður getur innihaldið flúoraðar gróðurhúsalofttegundir eða ósoneyðandi efni í kælirásum sínum. Því er mikilvægt að kælirásin rofni ekki, t.a.m. við flutninga.
Kælibúnaði á að skila til virðukennds móttökuaðila en ekki í gám fyrir brotajárn heldur sem heimilis-/raftæki (nákvæm flokkun getur verið háð viðkomandi móttökuaðila). Móttökuaðilinn mun sjá til þess að umhverfisskaðleg efni í kælirás tækjanna séu fjarlægð áður en tækinu sjálfu er fargað.
Ósoneyðandi efnum og búnaði sem inniheldur þau skal skilað til viðurkenndra móttökuaðila sem sjá um að umhverfisskaðlegum efnum sé komið í réttan farveg. Ef um er að ræða staðbundið kerfi þarf að fá þar til hæft starfsfólk frá þjónustuaðila kerfisins til þess að fjarlæga allan miðil af kerfinu áður en kælirásin er rofin.