Landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð

Mynd: Hafþór Snjólfur HelgasonMynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð. Tillaga að áætluninni hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, sjá hér:

Tengill á áætlun
Tengill á aðgerðaráætlun

Svæði norðan Dyrfjalla var friðlýst sem landslagsverndarsvæði þann 2. júlí 2021 ásamt því sem Stórurð var friðlýst sem náttúruvætti.

Svæðið sem um ræðir er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og er staðsett ofan á þykkum basalthraunum. Innan svæðisins er að finna elstu hraun sem fundist hafa á Austfjörðum, um 13,5 milljón ára. Stórurð er gömul skriða sem féll ofan í Urðardal sem einkennist af stórum björgum og stórgrýti. Innan um stórgrýtið eru litlar tjarnir og sléttir grasbalar. Stórgrýtið er úr móbergi sem á uppruna sinn í megineldstöðinni í Dyrfjöllum. Úr Stórurð er mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón. Nánari upplýsingar um friðlýsta svæðið er að finna hér.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrfjöll og Stórurð er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur, hagsmunaaðila og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Aðgerðaráætlun fylgir stjórnunar- og verndaráætluninni.

Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 17. mars 2024.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum hér að neðan eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Samstarfshópur og samráðsáætlun

Nánari upplýsingar veitir Davíð Örvar Hansson, david.o.hansson@umhverfisstofnun.is og Lára Björnsdóttir, lara.bjornsdottir@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.