Heyrn

Photo by bruce mars on Unsplash

Hávaði dregur mjög úr lífsgæðum, hann getur valdið varanlegum heyrnarskaða og eyrnasuði, hann truflar svefn og hvíld, dregur úr málskilningi og námsgetu og veldur stressi.

Heyrnarskerðing er algengasta afleiðing hávaða og algengasti óafturkræfi vinnuskaðinn.

Hávaði getur breytt eðlislægu svefnmynstri. Svefntruflanir geta svo leitt m.a. til þreytu, streitu, depurðar og minnkaðrar framkvæmdahæfni. Streita veldur svo m.a. aukinni framleiðslu streituhormóna, hækkun blóðþrýstings og eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. 

Rannsóknir sýna að mikill hávaði hefur neikvæð áhrif á málþroska og náms- og lestrargetu barna. Börn eiga erfiðara með að greina talað mál út úr hávaða en fullorðnir. Fyrst við 13-15 ára aldur hafa þau náð sömu hæfni og fullorðnir hvað þetta varðar. Talið er að stóran hluta lestrarörðugleika hjá börnum megi rekja til hávaða í kennslustofunni.

Væg heyrnardeyfa hjá börnum og fullorðnum dregur verulega úr hæfni þeirra til þess að skilja mál og ná hátíðnihljóðum (6 – 8000 Hz), einkanlega þar sem hljómburður er lélegur. Margir óraddaðir samhljóðar hafa tíðnina 6 – 8000 Hz en talið er að 60% af getu okkar til að heyra rétt, og þar með skilja það sem sagt er, byggist á því að heyra samhljóða, en aðeins 5% byggi á getunni til þess að heyra sérhljóða.

Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós að um 70% framhaldskólanema hafa greinst með forstigseinkenni af varanlegri heyrnardeyfu. Einnig fjölgar ört þeim unglingum sem þjást af eyrnasuði (tinnitus) og segja margir þeirra að það hafi byrjað eftir að þeir höfðu hlýtt á háværa tónlist. Ætla má að ástandið hér á landi sé ekki mjög frábrugðið því sem er í Bandaríkjunum.