Hæfnispróf starfsmanna

Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu árlega standast hæfnispróf skv. III. viðauka reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu standast hæfnispróf skv. III. viðauka fyrrnefndrar reglugerðar á tveggja ára fresti. Sundkennurum, sem lokið hafa íþróttafræðinámi á háskólastigi eða jafngildu eldra prófi og hafa leyfisbréf til kennslu, skv. lögum nr. 87/2008, um menntun, ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, standast hæfnispróf skv. III. viðauka á þriggja ára fresti.

 

Hæfnispróf starfsmanna sem sinna laugargæslu, sundkennara, sundþjálfara og leiðbeinenda.
  Tíðni hæfnisprófs
Starfsmenn sem sinna laugargæslu Einu sinni á ári
Sundkennarar (ekki með háskólapróf), sundþjálfarar og leiðbeinendur Á tveggja ára fresti
Sundkennarar, sem lokið hafa íþróttafræðinámi á háskólastigi eða jafngildu eldra prófi og hafa leyfisbréf til kennslu, skv. lögum nr. 87/2008 eftir 15. febrúar 2014. Á þriggja ára fresti
Sundkennarar, sem lokið hafa íþróttafræðinámi á háskólastigi eða jafngildu eldra prófi og hafa leyfisbréf til kennslu, skv. lögum nr. 87/2008 fyrir 15. febrúar 2014. Bóklegt endurmenntunarnámskeið, einu sinni á ári þar sem námsefnið er skv. III. viðauka, eða hæfnispróf skv. III. viðauka á þriggja ára fresti.

Leiðbeinendur með gild réttindi til að leiðbeina í skyndihjálp og björgun skulu annast hæfnispróf skv. III. viðauka. Slík réttindi öðlast þeir sem hafa lokið leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp og tveggja daga leiðbeinendanámskeiði í björgun. Til að viðhalda réttindum sínum skal leiðbeinandi sækja endurmenntun fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og björgun á þriggja ára fresti. Heimilt er að leiðbeinendur leiti til íþróttakennara til að framkvæma prófatriði 1-3 í hæfnisprófi skv. III. viðauka. 

Að loknu námskeiði í sérhæfðri skyndihjálp fyrir sund- og baðstaði og hæfnisprófum skv. III. viðauka, skulu leiðbeinendur senda lista yfir þátttakendur sem hafa lokið sérhæfðu skyndihjálparnámskeiði fyrir sund- og baðstaði og þá er hafa staðist hæfnispróf samkvæmt III. viðauka, til viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis og til viðkomandi rekstraraðila sundstaðar þar sem starfsmaðurinn starfar. 

Listi frá leiðbeinendum um þá sem staðist hafa hæfnispróf skv. III. viðauka og starfa á sund- og baðstað, skal vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengilegur við eftirlit.

Hæfnispróf - prófatriði

  1. Þolsund, 600 m á innan við 21 mínútu (frjáls aðferð). 
  2. Hraðsund, 25 m á 30 sek. 
  3. Kafsund, 15 m. 
  4. Björgunarsund í síðbuxum og síðerma peysu, 25 m með jafningja. 
  5. Björgun á óvirkum jafningja með björgunarsveig eða öðrum flotáhöldum, úr miðri laug að hliðarbakka, lyfta viðkomandi upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar. 
  6. Sækja 3 hluti í dýpsta hluta laugar (á allt að 3,5 m dýpi). Synda 5 m á yfirborði, kafa niður eftir hlut, hlutnum skilað á bakka, hvíld milli kafana 10 sekúndur. 
  7. Hoppa eða stinga sér út í laug, synda 25 m, kafa eftir björgunarbrúðu í dýpsta hluta laugar, færa björgunarbrúðu upp á yfirborðið og synda 25 m til baka, lyfta björgunarbrúðu upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar. 
  8. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu ljúka árlegu námskeiði í skyndihjálp og björgun fyrir sund- og baðstaði og standast alla verklega þætti þess námskeiðs. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ljúka þessu námskeiði á tveggja ára fresti. (Tíðni sbr. ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, með breytingum í reglugerðum nr. 773/2012 og 205/2014. Sjá einnig töflu fyrir ofan, Hæfnispróf starfsmanna sem sinna laugargæslu, sundkennara, sundþjálfara og leiðbeinenda.) 
  9. Fara yfir öryggisatriði og útbúnað (öryggis- og sjúkrabúnað) á viðkomandi sund- og baðstað.

Standist viðkomandi ekki einstaka þætti hæfnisprófsins skal hann endurtaka þá hluta innan mánaðar hjá sama leiðbeinanda.