Áhrif

Margbrotin náttúra landsins er eitt helsta aðdráttarafl okkar sem ferðumst um landið. Landið er víða viðkvæmt fyrir ágangi og gáleysislegur akstur getur valdið skemmdum á náttúrunni sem eru ár eða jafnvel áratugi að ganga til baka með tilheyrandi áhrifum á ásýnd landsins. 

Akstur utan vega er brot á 31. grein náttúruverndarlaga.

Hætta á óafturkræfum skemmdum

Jarðvegur á Íslandi er eldfjallajarðvegur sem er einkar laus í sér og víðast hvar mynda hjól vélknúinna ökutækja djúp för í yfirborðið, hvort sem yfirborðið er gróið eða ekki. Að afmá för eftir utanvegaakstur er tímafrek og erfið vinna og ítrekaður akstur ýtir undir hættu á óafturkræfum skemmdum. 

Ísland liggur rétt sunnan við heimskautsbaug þar sem vaxtartími gróðurs er stuttur og gróðurskemmdir geta verið áratugi að jafna sig. Á söndum og ógrónum svæðum geta förin einnig verið mjög lengi að hverfa. Förin raska þannig ásýnd svæðis, auk þess sem þau eiga það til að skapa farveg fyrir vatn sem ýtir undir jarðvegsrof.  


Snjór og pollar á vegum

Akstur utan vega að hausti er algengt vandamál. Fyrst á haustin festist snjórinn aðallega í vegum á hálendinu en svæðin meðfram þeim haldast snjólaus. Þá safnast stundum stórir pollar í vegina. Ferðamenn á illa útbúnum bílum freistast þá til að aka út fyrir vegina.

 Í flestum tilvikum er ekið utan vega á ógrónum svæðum. Einstaka sinnum er ekið um mjög viðkvæm gróin svæði sem erfitt er að lagfæra. Aksturinn skilur eftir sig varanlegar skemmdir á náttúrunni.


Hætta á sandfoki

Stór hálendissvæði eru þakin þunnri malarkápu, en undir kápunni er fínni sandur. Slíkar malarkápur myndast þar sem ákveðið jafnvægi hefur skapast í samspili vindrofs, jarðvegs og frostverkunar. Sé slíkri kápu raskað, t.d. með myndun hjólfara, skapast hætta á vindrofi með tilheyrandi sandfoki þar sem malarkápan ver undirliggjandi sandinn fyrir vindi. 

Malarkápan getur verið áratugi að ná fyrra jafnvægi og þekkt er að hjólför í slíkum malarkápum hafi verið staðbundnar uppsprettur sandfoks á hálendi landsins á fyrstu áratugum aksturs á hálendinu. Hélt uppblástur úr förunum áfram jafnvel mörgum árum eftir að ekið var um viðkomandi svæði. 

För eftir akstur utan vega í malarkápu við Kjalveg. Sandur og fínn jarðvegur hefur leitað upp á yfirborð í förunum og er því berskjaldaður fyrir sandfoki.



Akstur utan vega bannaður

Bann við akstri utan vega á við öll vélknúin ökutæki, þar á meðal öll torfærutæki (s.s. fjórhjól eða mótorkrosshjól).

Ökum aðeins vegi og merkta slóða en ekki utan þeirra. Göngum eða snúum við ef ekki verður komist lengra akandi. Öflum okkur upplýsinga um fyrirhugaða leið. Notum vegakort til þess að skipuleggja ferðalagið áður en lagt er af stað.

Virðum árstíðabundnar takmarkanir á umferð um óbyggðir og hálendi og fylgjumst með tilkynningum um ástand vega. Ábyrg umgengni um náttúru landsins gefur öllum kost á að njóta óspilltrar náttúru landsins um ókomin ár.

Upplýsingar um ástand vega fást í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar.

Akstur utan vega er stranglega bannaður og varðar sektum eða fangelsi!

 

Djúp för í grýttum og blautum jarðvegi í Kerlingarfjöllum.