Meðhöndlaðar vörur

Sæfivörureglugerðin fjallar ekki bara um sæfivörur heldur líka um allar vörur sem hafa verið meðhöndlaðar með eða innihalda sæfivörur. Vörur má einungis meðhöndla með virkum efnum sem hafa verið samþykkt til notkunar í sæfivörum. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga þegar vara er flutt inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem þær vörur hafa hugsanlega verið meðhöndlaðar með virkum efnum sem ekki eru leyfð samkvæmt sæfivörureglugerðinni. 
 
Sá sem flytur meðhöndlaða vöru inn á EES eða framleiðir slíka vöru, sem ætlunin er að bjóða fram og nota innan EES, er ábyrgur fyrir því að varan sé hvorki hættuleg heilsu manna né umhverfinu. Jafnframt er hann ábyrgur fyrir því að merking vörunnar sé rétt og í samræmi við kröfur sæfivörureglugerðarinnar. 
  

Hvað er meðhöndluð vara og hvernig veistu hvort varan er meðhöndluð vara eða sæfivara? 

Meðhöndluð vara (e. treated article) er í sæfivörureglugerðinni skilgreind sem sérhvert efni, blanda eða vara, sem hefur verið meðhöndluð með einni eða fleiri sæfivörum eða sem inniheldur af ásettu ráði eina eða fleiri sæfivörur. Tilgangurinn er að verja vöruna fyrir lykt, rotnun eða óæskilegum breytingum af völdum baktería, sveppa, þörunga eða meindýra. 
Dæmi: 
 Flokkast gámur, sem notaður er til geymslu og flutninga, sem meðhöndluð vara ef hann hefur verið meðhöndlaður með sótthreinsiefni?  
  • Nei, þar sem sótthreinsiefninu er ætlað að virka gegn óþrifum á því augnabliki sem það er notað en ekki í þeim tilgangi að breyta hlutverki gámsins, flokkast hann ekki sem meðhöndluð vara. 
 Flokkast sófi sem meðhöndluð vara ef viðargrind sófans hefur verið meðhöndluð með rotvarnarefni, sem fellur undir sæfivörureglugerðina? 
  •  Já, jafnvel þó einungis einn þáttur í samsettri vöru eins og sófa innihaldi sæfivöru flokkast hann sem meðhöndluð vara.  
  
Vara telst ýmist vera sæfivara eða meðhöndluð vara eftir því hvort eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:   
  • Ef sæfivaran, sem varan er meðhöndluð með, er notuð til að ná fram ákveðinni virkni sem er frumtilgangur vörunnar telst hún vera sæfivara. 
  •  Ef sæfivaran, sem varan er meðhöndluð með, er notuð til að ná fram ákveðinni virkni sem er ekki eiginlegur tilgangur vörunnar, telst hún vera meðhöndluð vara, t.d. málning, lakk, fatnaður, skór, teppi eða sturtuhengi. 
 Taflan hér að neðan sýnir dæmi um hvernig Umhverfisstofnun túlkar hvað er meðhöndluð vara og hvað er sæfivara. 
 

Hvaða kröfur eru gerðar til meðhöndlaðrar vöru?  

 Kröfurnar sem gerðar eru til meðhöndlaðrar vöru koma fram í 58 gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, og eiga við um meðhöndlaðar vörur sem ekki teljast sjálfar vera sæfivörur. Sé meðhöndlaða varan sjálf sæfivara, þ.e. fyrst og fremst með sæfandi hlutverk, þá þarf hún að uppfylla kröfurnar sem eiga við um sæfivörur, sjá nánari upplýsingar um hvað þú þarft að gera á síðunni um að bjóða fram og nota sæfivöru. (Krækja í skjalið „Sala sæfivöru“, sem fylgir í viðhengi) 
Sæfivörureglugerðin bannar að settar séu á markað aðrar meðhöndlaðar vörur en þær sem innihalda virk efni sem hafa verið samþykkt í viðkomandi vöruflokki og notkun þeirra þarf að vera í samræmi við þau skilyrði og takmarkanir sem gilda um virka efnið. 
Framleiðendur, innflytjendur og aðrir sem setja meðhöndlaða vöru á markað eru ábyrgir fyrir því að á merkingum komi fram viðeigandi upplýsingar í samræmi við fullyrðingar framleiðanda um sæfandi eiginleika vörunnar og þau skilyrði sem samþykki virka efnisins er háð.  
  
Auk þess að merkja vöruna, skal birgir meðhöndlaðrar vöru veita neytanda upplýsingar um meðhöndlun vörunnar með sæfivöru innan 45 daga frá því að eftir því var óskað, honum að kostnaðarlausu. 

Merkingar á meðhöndluðum vörum, hvenær á að merkja og hvaða upplýsingar eiga að koma fram 

Framleiðendur, innflytjendur og aðrir sem setja meðhöndlaða vöru á markað eiga að merkja hana sem slíka ef: 
 Þeir fullyrða að varan hafi sæfandi eiginleika.
  • Skilyrði fyrir samþykki virka efnisins (efnanna) sem notuð eru til að meðhöndla vöruna krefjast sérstakrar merkingar til að vernda heilsu manna eða umhverfið. 
 Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram á meðhöndluðu vörunni:  
a) Yfirlýsing um að varan innihaldi sæfivörur.  
b) Sæfandi eiginleikar sem vörunni eru eignaðir, ef færð eru rök fyrir þeim.  
c) Heiti allra virku efnanna í sæfivörunni, sem varan var meðhöndluð með.  
d) Heiti allra nanóefna í sæfivörunni, sem varan var meðhöndluð með ásamt orðinu „nanó“ í sviga á eftir.  
e) Allar viðeigandi notkunarleiðbeiningar, þ.m.t. allar varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna sæfivaranna sem varan var meðhöndluð með eða sem hún inniheldur. 

Hver á að merkja meðhöndlaða vöru? 

Sá sem setur meðhöndlaða vöru á markað er ábyrgur fyrir réttri merkingu hennar og almenni skilningurinn er, að sá sem fyrst markaðssetur vöruna sé ábyrgur fyrir merkingu hennar. Ef meðhöndluð vara er síðan notuð í flóknari vöru, t.d. viðargrind með viðvarvörn notuð til að framleiða sófa, þá er fyrirtækið sem markaðssetur flóknari vöruna (sófann) ábyrgt fyrir því að vara þess uppfylli kröfurnar um merkingu. 

Hver er staða virku efnanna í þinni vöru? 

Áður en þú setur meðhöndlaða vöru á markað á Íslandi þarftu að ganga úr skugga um að virka efnið sé annað hvort samþykkt fyrir viðkomandi vöruflokk eða í áhættumati fyrir hann. Hægt er að fletta upp upplýsingum um stöðu virka efnisins á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu
  

Nánari leiðbeiningar um meðhöndlaða vöru 

Evrópusambandið hefur gefið út mjög góðar leiðbeiningar þar sem farið er nánar í þau atriði sem varða meðhöndlaðar vörur. Þar eru útskýrð atriði eins og hvert sé hlutverk vörunnar og nánar farið í þau atriði sem varða merkingar hennar. 
Sjá einnig :

 Dæmi um virk efni í meðhöndluðum vörum