Útivist og gönguleiðir

Gangan upp á Laugarfjall er þægileg og hófleg hringleið. Þar uppi eru tveir útsýnispallar með útsýni yfir hverasvæðið og skógræktina annarsvegar og hinsvegar með útsýni yfir Helludal og Bjarnarfell.

Friðlýsta svæðið nær upp að bílastæðinu við skógræktina í Haukadal en inni í skógrækt er urmull gönguleiða. Þar er gaman að villast.

Vinsælust er gönguleið inn að Svartagili. Þá er gengið fram hjá Hákonarlundi og yfir Kaldalæk til norðurs. Um Svartagil rennur lítill lækur og þar má finna hæsta tré í Haukadalsskógi (heimild árbók FÍ 1998).

Ef gengið er áfram undir hlíðum Sandfells til norðvesturs er hægt að ganga niður í Gunnarslund. Þar er tilvalið að borða nesti og hlusta á lækjarnið og fuglasöng. Hringurinn lokast svo aftur við bílastæðið við Hákonarlund.

Utan Geysissvæðisins eru fjölmargar skemmtilegar göngur sem vert er að kynna sér.

Reið/gönguleið er fyrir norðan Laugarfjall og fer hún inn að skógrækt í Haukadal. Þannig er hægt að ganga hringinn í kringum Laugarfjall og tengjast skógrækt og fylgja vegi tilbaka.