Jarðfræði svæðisins

Jarðfræði

Landið í og við Þjórsárver er öldótt háslétta, mótuð af Ísaldarjökli og berggrunnurinn er að mestu basalthraun, harðnaður jökulruðningur (jökulberg), sandsteinn, til orðinn úr jökulvatnsseti, og móberg. Þegar jökullinn hopaði fyrir um 10.000 árum skildi hann eftir sig malarása sem setja mestan svip á landið. Hraun hefur runnið nokkrum sinnum í grennd við Þjórsárver eftir lok ísaldar. Ofan á berggrunninum eru víðast hvar þykk setlög, en ofan á þeim er sendinn jarðvegur, 2-7 m þykkur, og sandurinn verður því meiri sem ofar dregur sem bendir til þess að sandfok hafi farið vaxandi eftir því sem á leið.


Jökullinn og eldstöðin

Hofsjökull er þriðji stærsti jökull landsins og nær alls yfir 810 ferkílómetra. Úr Hofsjökli skríða yfir 20 aðgreindir skriðjöklar til allra átta og stærstur þeirra er Þjórsárjökull.

Íshettan þekur eina víðfemustu eldstöð landsins. Jarðfræði eldstöðvarinnar er nokkuð lítið þekkt, enda hefur hún lítið látið á sér kræla undanfarin 10.000 ár. Þó má finna nokkur basalthraun í jaðri jökulsins sem hafa runnið síðustu árþúsundir - t.d. Illahraun við Kerlingarfjöll og Háölduhraun á Sprengisandi. Jarðhiti er þekktur á nokkrum stöðum og finnast heitar uppsprettur innan friðlandsins í Þjórsárverum. 

Nokkur fjöll, mynduð úr móbergi og líparíti, eru í jaðri Hofsjökuls og bera vitni um eldsumbrot undir ísaldarjökli. Þeirra á meðal eru líparítsfjöllin Arnarfell hið mikla og Arnarfell hið litla. Hæsta fjallið við rætur Hofsjökuls er móbergsstapinn Miklafell (1468 m) sem skagar út úr austanverðum jöklinum.