Samgöngur

Flestum okkar finnst þægilegast að grípa í einkabílinn þegar fara þarf á milli staða en ef við ætlum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum hjá okkur  er auðveldast að gera breytingar á samgöngumynstrinu fyrst.

Samgöngur er ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi auk þess að hafa neikvæð áhrif á loftgæði. Við bruna á jarðefnaeldsneyti og ekki síður við framleiðslu þess og flutning til landsins, losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum. Árið 2015 var losun frá vegasamgöngum um 30% af metinni heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (þ.e. þeirri losun sem stjórnvöld eru ábyrg fyrir) Sjá frekari umfjöllun um loftslagsmál hér.

Enn sem komið er nota Íslendingar einkabílinn í mun meira mæli en margar Evrópuþjóðir. Í könnun Evrópusambandsins árið 2013 um viðhorf evrópubúa til samgangna, kom í ljós að 50% þeirra nota bíl á hverjum degi. Samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2008 fóru 75% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á einkabíl til vinnu eða skóla, 6% með almenningssamgöngum og 12% gangandi og hjólandi. Samskonar könnun var gerð árið 2011 og niðurstöðurnar sýna að litlar breytingar hafa orðið á ferðamáta höfuðborgarbúa. Árið 2011 fóru 75% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á einkabíl þennan dag sem könnunin var gerð. 4% fóru með strætó, 3.8% á hjóli og 15% gangandi. Í sömu könnun kom fram að á heimilum 40% höfuðborgarbúa eru tveir bílar og einn bíll á 43% heimila, aðeins 4,3% svöruðu því til að á heimilinu væri enginn bíll.