Hávaði er nánast alls staðar í daglegu umhverfi okkar og uppspretturnar margar, bæði í vinnuumhverfinu og þar sem við verjum frítíma okkar, jafnt heima sem heiman.
Í þéttbýli er það aðallega hávaði frá umferð og nágrönnum sem angrar fólk, auk hvers kyns tækjabúnaðar í byggingum.
Hávaði á/frá vinnustöðum er m.a. margs konar vélarhljóð svo sem frá blásurum, kælipressum, hristurum, kvörnum og vinnuvélum af ýmsu tagi. Hljóðdæmi frá Vinnueftirlitinu með upplýsingum um áhrif hávaða (mp3). Á skrifstofum veldur ýmis konar utanaðkomandi hávaði truflun, en einnig geta loftræsikerfi, ljósritunarvélar, prentarar og tölvur o.fl. valdið truflun. Í skólum og leikskólum eru það gjarnan athafnir barnanna sem valda mestum hávaða. Frekari fróðleik og upplýsingar um hávaða á vinnustöðum má finna á vefsíðum Vinnueftirlitsins.
Hávaði á tónleikum, diskótekum, akstursíþróttasvæðum, frá vélsögum, vasadiskóum, leikföngum og flugeldum veldur oft heyrnarskaða.
Í reglugerðum er að finna ákvæði um hávaða á vinnustöðum, hönnun húsa varðandi hljóðvist þeirra og um hávaðamörk utanhúss. Þá geta heilbrigðisnefndir gefið fyrirmæli vegna ónæðis af hávaða á skemmtistöðum, frá hljómflutningstækjum og öðrum tækjum á almannafæri.
Byggingarfulltrúar, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Vinnueftirlit ríkisins hafa eftirlit með hljóðhönnun húsa, hávaða og mæla hljóðstig og ómtíma. (ómtími er sá tími sem tekur hljóð að deyja út).
Á hávaðasömum vinnustöðum þar sem jafngildishljóðstig er yfir 85 dB á að skaffa starfsfólki heyrnarhlífar, en í skólum og leikskólum er ekki hægt að nota slíkt.
Hávaðamælingar í skólum, leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum hér á landi sýna að þessir staðir uppfylla ekki kröfur um ómtíma auk þess sem meðaltal hljóðstigs þar er oft yfir hættumörkum ( 80-85 dB ). Þetta er verulegt áhyggjuefni einkum vegna þess að heyrn barna er viðkvæmari en fullorðinna. Þá sýna niðurstöður mælinga á tónleikum að þar fer hávaði oft langt yfir hættumörk.