Dýralíf

Fuglar 

Fuglalíf er nokkuð fjölbreytt í friðlandinu í Vatnsfirði. Friðlandið nær frá sjó og upp á Glámuhálendið og því er búsvæðið fjölbreytt. Má segja að þar finnist öll búsvæði fugla nema fuglabjörg.

Á hálendinu má finna himbrima, lóma og álftir á vötnum og sendlinga, snjótittlinga og steindepla ásamt rjúpum og heiðlóum. Þessir fuglar eru ekki í miklum þéttleika enda búsvæðin rýr.

Við Vatnsdalsvatn hafa orpið bæði lómur og himbrimi og komið upp ungum. Toppönd hefur einnig verpt við vatnið og komið upp ungum. Fleiri andartegundir hafa sést við vatnið  s.s. urtönd, rauðhöfðaönd, stokkönd, straumönd og hávella.

Breiðafjörður er votlendisfuglum mikilvægur. Á fartíma þ.e. vor og haust eru þar t.d. margæsir, rauðbrystingar, tildrur og sendlingar sem eru í ætisleit fyrir áframhaldandi flug til varpstöðva á norðlægum slóðum og stoppa svo aftur áður en þeir fara til vetrarstöðva sunnar í Evrópu. Fjöldi tegunda nýtir svæðið á fjaðrafellistíma s.s. álftir, grágæsir og æðarfugl. Staumendur og sendlingar hafa þar vetursetu ásamt fjölda annarra tegunda.

Í fjörunni í Vatnsfirði má sjá æðarfugl og ýmsar tegundir máfa allt árið. Á vorin er mikið líf á leirunum og fjöldi fugla í fæðuleit s.s. sendlingur, tjaldur, heiðlóa, stelkur og sandlóa. Sumir þessara fugla verpa á svæðinu en aðrir færa sig fjær sjónum þegar kemur að varpi. Krían kemur yfirleitt í maí eftir langt flug sunnan úr heimi og verpir við sjóinn en hefur einnig verpt við Vatnsdalsvatn.

Í birkikjarrinu er skógarþröstur algengasti fuglinn ásamt þúfutittling. Músarindill og auðnutittlingur eru líka algengir í kjarrinu. Sést hefur til glókolls í Vatnsfirði en hann er  minnsti fugl Evrópu. Mjög erfitt er að koma auga á glókoll en í honum heyrist nokkuð vel. Hrossagaukur finnst í mýrum og í kjarrinu líka.

Við Vatnsdalsvatn hafa orpið bæði lómur og himbrimi og komið upp ungum. Toppönd hefur einnig verpt við vatnið og komið upp ungum. Fleiri andartegundir hafa sést við vatnið  s.s. urtönd, rauðhöfðaönd, stokkönd, straumönd og hávella.

Fálkar og smyrlar hafa sést á ferð um friðlandið. Góðar líkur eru á að gestir sjái haförn á flugi enda eru þeir ekki óalgeng sjón á þessu svæði. Haförninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl á Íslandi og honum var nærri útrýmt í upphafi 20. aldar. Hann verpir um vestanvert Ísland og er nokkuð algengur við Breiðafjörð en þar verpir rúmlega helmingur af hafarnarstofninum. Haförninn er staðfugl en ungfuglar flakka innanlands. Haförn og fálki eru alfriðaðir. Óheimilt er að fara nær hreiðrum hafarna en 500 m nema með sérstöku leyfi. Dvöl við hreiður fálka er óheimil.

Fiskar og skordýr

Í Vatndalsvatni veiðist bleikja og stöku lax. Eins til þriggja punda bleikjur eru algengastar en veiðst hafa allt upp í 6 punda bleikjur. Veiði í vatninu er háð veiðileyfi.

Oft er mikið af flugu við Vatnsdalsvatn. Við vatnið sjálft er aðallega rykmý en það er fæða fyrir fiska og fugla og einnig önnur skordýr. Bitmý fylgir rennandi vatni og er á sama hátt fæða fyrir önnur dýr. Þeir sem dvelja á svæðinu á lognkyrrum sumardegi mega búast við að mýið geri sér dælt við þá og vissara er að hafa flugnanet við höndina.

Spendýr

Landselir eru nokkuð algengir við Breiðafjörð. Selalátur eru víða og kæpa urturnar í látrunum.  Ungir selir eru oft forvitnir og virðast fylgjast með fólki uppi á landi en eru svo fljótir að láta sig hverfa ef styggð kemur að þeim. Við Hörgsnesið er oft hægt að sjá seli liggja á skerjum.

Hagamýs eru dreifðar um allt land. Á sumrin sjást þær yfirleitt ekki mikið en þegar haustar eru þær meira á ferðinni. Að vetri sjást oft hrúgur af rauðum sortuberjum sem búið er að safna saman, líklega til að eiga aðgengilegan forða.

Refur og minkur finnast í friðlandinu. Þessar tegundir eru yfirleitt ekki áberandi nema helst á fengitíma síðla vetrar en þá eru þeir meira á ferðinni en á öðrum tíma ársins. Refurinn veiðir aðallega á landi en nýtir sér einnig fjöruna. Minkurinn er mun fjölhæfari á veiðum og veiðir bæði í vatni og á landi.