Gerpissvæðið

Gerpissvæðið er landsvæði milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar þar sem áður voru blómlegar sveitir og sjósókn stunduð. Á 21. öldinni fóru byggðir svæðisins í eyði en friðsæld og stórbrotin náttúran stendur eftir. Friðlýsta svæðið, sem er um 121,24 km2, er verndað sem landslagsverndarsvæði og hefur hátt verndargildi sem byggir á mikilvægi jarðminja, landslags, útivistargildis og menningarsögu. Innan svæðisins eru einnig stór svæði sem bera einkenni óbyggðra víðerna auk þess sem þar er að finna búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og fugla.

 Fjölmargar sjaldgæfar plöntur er að finna á svæðinu og eru nokkrar þeirra skráðar á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (2018) sem tegundir í nokkurri hættu, s.s. stinnasef, skógelfting og lyngbúi. Margar vistgerðir eru innan svæðisins sem hafa hátt verndargildi, eru á lista Bernarsamningsins og flokkast sem forgangsvistgerðir, s.s runnamýravist og kjarrskógavist. Lyngmóavist á láglendi og blómgresisvist hafa jafnframt hátt verndargildi.  



  Innan friðlýsta svæðisins er Seley sem er skilgreind sem mikilvægt fuglasvæði. Lundabyggð er í Seley en þar er einnig talsvert æðarvarp auk þess sem það er eina þekkta varpsvæði helsingja á Austurlandi.

Kort af svæðinu:


  Barðsneseldstöðin er elsta eldstöð Austfjarða og var virk fyrir 12-13 milljónum ára. Á norðaustanverðu Barðsnesi er þykk lagskipt gjóska þar sem er að finna kolaða trjástofna í uppréttri stöðu, og eru það elstu gróðurleifar á Austurlandi. Náttúruvættið Helgustaðanáma er á Helgustaðajörðinni og líklega er að finna kalsít á fleiri stöðum á jörðinni.

  Á svæðinu er mikilfenglegt landslag og hefur það hátt útivistar- og fræðslugildi vegna náttúrufars og sögu.

  Í Hellisfirði og Viðfirði er að finna kóralþörunga sem eru mikilvæg búsvæði fyrir aðrar lífverur og hafa mjög hátt verndargildi.


  Friðlýsingin var hluti af átaki í friðlýsingum en Gerpissvæðið var tilnefnt á náttúruverndaráætlun 2009-2013.

Kort af svæðinu (pdf)
Auglýsing um friðlýsingu svæðisins