Losun annarra loftmengunarefna

Óbeinar gróðurhúsalofttegundir (SOx, NOx, NH3, NMVOC og CO), sem stuðla að hnattrænni hlýnun, eru metnar í losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar. Þær hafa áhrif á myndun og líftíma gróðurhúsalofttegunda ásamt því að hafa áhrif á eiginleika andrúmsloftsins. Einnig hafa forefnin skaðleg áhrif á heilsu fólks. Helstu uppsprettur þeirra eru jarðvarmavirkjanir (SOx – oxun af H2S), fiskiskip (NOx), landbúnaður (NH3), meðhöndlun húsdýraáburðar og notkun leysiefna (NMVOC) og álframleiðsla (CO).

Að auki eru í losunarbókhaldinu svifryk (PM2,5, PM10 og TSP) sem kemur aðallega frá iðnaði, vegasamgöngum, fiskiskipum og mannvirkjagerð og sót (BC) sem kemur mestmegnis frá vegasamgöngum. Svifryk og sót hafa áhrif á hlýnun jarðar og skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Bókhald Umhverfisstofnunar heldur utan um eftirfarandi efni

 • Óbeinar góðurhúsalofttegundir
  • Brennisteinsdíoxíð – SOx (SO2 ígildi)
  • Köfnunarefnisdíoxíð – NOx (NO2 ígildi)
  • Ammóníak – NH3
  • Rokgjörn, lífræn efnasambönd – NMVOC (non-methane volatile organic compounds)
  • Kolmónoxíð – CO
 • Svifryk – TSP, PM10, og PM2,5 (total suspended particulate og particulate matter)
 • Sót – BC (black carbon)

Bennisteinsdíoxíð – SO2 (SOx)

Losun brennisteinsoxíða (SOx) er að mestu frá jarðvarmavirkjunum (oxun af H2S). Engin brennisteinslosun er frá landbúnaði. Losun á SOx á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

 • Jarðvarmavirkjanir: Jarðvarmavirkjanir eru stærsta uppspretta brennisteinslosunar á Íslandi. Í jarðvarmavirkjunum losnar brennisteinsvetni (H2S) við jarðhitavinnslu. Meginhluti þess oxast í SO2. Samkvæmt reglum um gerð losunarbókhalds loftmengunarefna skal telja losun allra brennisteinssambanda, þar með talið H2S, sem ígildi SO2. Frá 1990 hefur losun brennisteinssambanda aukist vegna aukinnar orkuframleiðslu jarðvarmavirkjana. Síðustu ár hefur losunin þó minnkað í kjölfar Sulfix verkefnisins þar sem brennisteinsvetni er dælt ofan í jörðina. H2S er aðgreint úr gufunni, leyst upp í vatni og dælt djúpt niður í basaltberglög þar sem það breytist í steindir.
 • Álframleiðsla: Ál er framleitt í þremur álverum á Íslandi. Brennisteinslosun á sér stað í framleiðsluferlinu. Losunin jókst árið 1998 vegna nýs álvers sem þá var tekið í notkun og enn frekar árið 2006-2008 vegna stækkunar eins álvers og opnun annars. Losunin frá álframleiðslu hefur verið nokkuð stöðug frá 2008.
 • Járnblendi: Tvær verksmiðjur eru starfandi á Íslandi. Önnur hefur framleitt 75% kísiljárn (FeSi75) síðan 1979 en hin hóf framleiðslu á ≥98,5% kísli árið 2018. Þriðja verksmiðjan framleiddi kísil milli 2016-2017. Brennisteinslosun á sér stað í framleiðsluferlinu.
 • Fiskiskip: Losun frá fiskiskipum hefur minnkað undanfarin ár. Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans og lægra brennisteinsinnihalds eldsneytis. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni.
 

Köfnunarefnisdíoxíð – NO2 (NOx)

Við eldsneytisbruna myndast köfnunarefnismónoxíð (NO) þegar köfnunarefni og súrefni hvarfast saman við hátt hitastig. Í andrúmsloftinu oxast svo köfnunarefnismónoxíð yfir í köfnunarefnisdíoxíð (NO2). Dregið hefur úr losun á NOx frá 1990. Losun á NOx á Íslandi stafar fyrst og fremst af eftirfarandi uppsprettum:

 • Fiskiskip: Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni. Losun er minni nú en hún var árið 1990.
 • Vegasamgöngur: Losun frá vegasamgöngum hefur minnkað talsvert, sérstaklega frá fólksbílum. Samdráttinn má að mestu rekja til tilkomu hvarfakúta frá árinu 1995 þó svo að eldsneytisnotkun hafi aukist á sama tíma.
 • Járnblendi: NOx losun helst í hendur við framleiðslumagn. Tvær verksmiðjur eru starfandi á Íslandi. Önnur hefur framleitt 75% kísiljárn (FeSi75) síðan 1979 og hin hóf framleiðslu á ≥98,5% kísli árið 2018. Þriðja verksmiðjan framleiddi kísil milli 2016-2017 en hefur ekki framleitt síðan 2017.
 • Álframleiðsla: NOx losun helst í hendur við framleiðslumagn. Ál er framleitt í þremur álverum á Íslandi. Aukningin í losun yfir tímalínuna er vegna stækkunar áliðnaðarins.
 • Vélar og tæki: NOx Á árunum fyrir fjármálahrunið 2008 var aukning í eldsneytisnotkun á vélum og tækjum sem leiddi til aukinnar losunar. Síðan þá hefur eldsneytisnotkun og losun minnkað talsvert.
 

Ammóníak – NH3

Ammóníaklosun er að mestu frá landbúnaði og hefur haldist svipuð undanfarna áratugi. Helsta ástæða breytileika er breyting á húsdýrafjölda. Losun NH3 á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

 • Meðhöndlun húsdýraáburðar: Helsta ástæða breyttrar losunar er breyting á fjölda sauðfjár og nautgripa. Ekki hafa orðið miklar breytingar á aðferðum við meðhöndlun húsdýraáburðar. Undanfarin ár hefur fjöldi sauðfjár og mjólkurkúa dregist saman á meðan fjöldi annarra nautgripa hefur aukist.
 • Húsdýraáburði dreift á jarðveg: Helsta ástæða breytinga á losun eru breytingar á fjölda húsdýra. Almennt hefur losun ekki breyst mikið undanfarna áratugi.
 • Þvagefni og húsdýraáburður frá dýrum á beit: Helsta ástæða breytinga á losun eru breytingar á fjölda húsdýra. Almennt hefur losun ekki breyst mikið undanfarna áratugi.
 

Rokgjörn, lífræn efnasambönd – NMVOC

Samdrátt á losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (NMVOC, Non-methane volatile organic compounds) á Íslandi má að mestu skýra með minni losun frá vegasamgöngum. Losun NMVOC á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

 • Meðhöndlun húsdýraáburðar: Nokkur samdráttur átti sér stað 2001-2003 vegna fækkunar mjólkurkúa. Ekki hafa orðið miklar breytingar á aðferðum við meðhöndlun húsdýraáburðar.
 • Leysiefni og önnur efnanoktun: Lítil breyting hefur átt sér stað á tímabilinu. Einhver aukning hefur orðið á losun sem skýra má með fólksfjölgun sem hefur leitt til meiri efnanotkunar.
 • Framleiðsla matvæla og drykkja: Aukninguna á losun má skýra með aukningu í áfengisframleiðslu undanfarin ár.
 • Urðun úrgangs: Samdrátt á losun má skýra með því að minna magn úrgangs er urðað en áður.
 • Fólksbílar: Samdrátt í losun frá 1990 má að mestu skýra með endurnýjun bílaflotans þar sem kröfur um minni losun loftmengunarefna frá bílvélum hafa aukist.
 

Svifryk

Svifryk skiptist í þrennt eftir stærð, óháð efnasamsetningu. TSP (agnir innan við 50-100 µm í þvermál), PM10 (agnir innan við 10 µm í þvermál) og PM2,5 (agnir innan við 2,5 µm í þvermál). Allt PM2,5 er innan PM10 og allt PM10 er innan TSP. Eldgos losa mikið af svifryki en eru ekki talin með hér þar sem sú losun stafar ekki af mannavöldum. Losun svifryks á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

 • Málmiðnaður: Svifrykslosun frá álverum og járnblendi helst að mestu í hendur við framleiðslumagn. Aukningin á tímabilinu endurspeglar stækkun iðnaðarins.
 • Vegasamgöngur: Sveiflur í svifrykslosun eru vegna breytinga á mengunarvarnarbúnaði, aukningar á eldsneytisnotkun og aukningar á fjölda ekinna kílómetra.
 • Fiskiskip: Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingu á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum, ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni.
 • Mannvirkjagerð og niðurrif: Losunin helst í hendur við magn byggingaframkvæmda og vegagerðar. Helsta ástæðan fyrir samdrætti í losun á tímabilinu er minni vegalagning.
 • Vélar og tæki (annað): Á árunum fyrir fjármálahrunið 2008 jókst eldsneytisnotkun á vélum og tækjum sem leiddi til meiri losunar. Síðan hefur eldsneytisnotkun og losun minnkað talsvert. (Hafa ber í huga að ekki er hægt að bera saman losunina árin 2019-2021 við önnur ár í tímalínunni í þessum undirgeira vegna lagfæringa í losunarbókhaldinu sem ekki er lokið.)
 • Opinn bruni á úrgangi: Opinn bruni á úrgangi átti sér stað á fyrri hluta tíunda áratugar 20. aldar en viðgengst ekki lengur. Frá árinu 2010 hafa áramóta- og þrettándabrennur verið eina uppspretta losunar í þessum undirgeira. Árið 2020 voru engar áramótabrennur vegna Covid 19 faraldursins og fáar brennur árið 2021.
 • Hitaveitur: Hitaveitur sem byggja á sorpbrennslu voru í notkun frá 1993 til 2013 sem leiddi til töluverðrar losunar.

 
 
 
 

Sót – BC

Megnið af sótlosun (BC) er vegna vegasamgangna, véla og tækja. Heildarlosun á sóti hefur minnkað frá árinu 1990, að miklu leyti vegna samdráttar í eldsneytisnotkun og betri mengunarvarnarbúnaðar. Engin sótlosun er frá landbúnaði. Frekari upplýsingar um sót má nálgast í skýrslum vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sót og metan. Losun sóts á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

 • Vegasamgöngur: Sveiflur í sótlosun eru vegna breytinga á mengunarvarnarbúnaði og stærð bílaflotans.
 • Vélar og tæki (annað): Á árunum fyrir fjármálahrunið 2008 var aukning á eldsneytisnotkun á vélum og tækjum sem leiddi til aukinnar losunar. Síðan hefur eldsneytisnotkun og losun minnkað talsvert.
 • Fiskiskip: Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni.
 • Álframleiðsla: Sótlosun frá álverum fylgir framleiðslumagni að mestu. Aukningin á tímabilinu endurspeglar stækkun iðnaðarins.
 • Opinn bruni á úrgangi: Opinn bruni á úrgangi átti sér stað á fyrri hluta tíunda áratugar 20. aldar en viðgengst ekki lengur. Frá árinu 2010 hafa áramóta- og þrettándabrennur verið eina uppspretta losunar í þessum undirgeira. Árið 2020 voru engar áramótabrennur vegna Covid 19 faraldursins og fáar brennur árið 2021.