Um friðlandið

Dyrhólaey er 120m hár móbergsstapi sem hefur myndast í að minnsta kosti tveim gosum fyrir um 100.000 árum. Vesturhluti eyjarinnar(Háey) myndast í gosi í sjó og er að mestu byggð upp af lausum gosefnum og samlímdri gjósku sem er orðið að hörðu móbergi. Austari hlutinn(Lágey) er byggð upp af móbergi, bólstrabergi, og kubbuðu og stuðluðu basalti. Jarðfræði Lágeyjar bendir til að þar hafi verið virkt flæðigos sem byggði upp þykk hraunlög, ummerki flæðigossins má vel sjá sem stuðlað berg við Bolabás og á fleiri stöðum. Talið er að myndun Dyrhólaeyjar svipi mikið til myndunar Surtseyjar og í framtíðinni mun Surtsey mótast í átt að útliti Dyrhólaeyjar (brimklif umvafið dröngum og skerum). Dyrhólaey dregur nafn sitt frá 20m háum og 50m breiðum gatkletti sem blasir við þegar komið er að stapanum frá vestri og austri og lítur út eins og stór og mikil dyr í þverhníptu standberginu.

Af Dyrhólaey er stórbrotið útsýni yfir Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul, Reynisfjöru og óralöngu sandströnd suðurlands. Svæðið býður upp á einstaka upplifun, þar má sjá strandsvæði sem dregur útlit sitt frá fyrri menningu, ósnertri náttúru og fuglalífi. Það er auðvelt að gleyma tímanum þegar fylgst er með magnþrungnu briminu skella á skerjum, dröngum og brimklifum og fylgjast með sveimi fugla í fuglabjörgunum. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978 af Íslenska ríkinu vegna hinnar miklu náttúrufegurðar, fuglalífs og til að viðhalda þessum vinsæla viðkomustað ferðamanna. Stærð friðlandsins er 147,2 ha. Landvörður er með búsetu á svæðinu allt árið um kring og sér um innviðin, verndun náttúrunnar og fræðslu til gesta.