Hellar á Þeistareykjum

Hellar í Þeistareykjahrauni eru friðlýstir sem náttúruvætti. Svæðið sem friðlýst er er um 0,74 km2. Svæðið er opið og aðgengilegt gestum en hellarnir eru lokaðir og óheimilt er að fara inn í þá án leyfis Umhverfisstofnunar. Við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið verður sköpuð umgjörð um aðgengi með tilliti til þess að lyfta upp fræðslugildi svæðisins.

Þeistareykjahraun er talið hafa myndast í jarðhræringum fyrir um 2.400 árum. Hraunið liggur á milli Stóravítisdyngjunnar í austri og Lambafjalla í vestri. Aðal gosgígur hraunsins er Stórihver en frá honum liggur svipmikil röð hraunhóla og niðurfalla.
Í Þeistareykjahrauni hafa fundist einhverjir heillegustu hraunhellar sem þekktir eru og búa þeir yfir einstökum fjölda dropsteina og hraunstráa. Hellarnir sem eru fágætir á heimsvísu hafa hátt vísindalegt og fagurfræðilegt gildi auk þess sem fræðslumöguleikar eru miklir, sé rétt að staðið

Almennt njóta hraunhellar sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga um náttúruvernd auk þess sem dropsteinar eru friðlýstir á landsvísu með auglýsingu nr. 120/1974. Með friðlýsingu hellanna á Þeistareykjum og áhrifasvæðis þeirra er horft til þess að vernda hellana í til framtíðar auk þeirra náttúrufyrirbæra sem þar er að finna. Vernd hellanna er eingöngu tryggð með því að hellisop séu varin auk þess sem svæði á yfirborði hraunsins, þar sem hellarnir eru undir, þarfnast verndar við raski.