Vöktun á lofti og úrkomu

Umhverfisstofnun hefur stjórnsýslulega umsjón með sameiginlegum evrópskum vöktunarverkefnum í samræmi við alþjóðlega samninga um langt að borna mengun (Convention on Long-range Transboundary Air Pollution / CLTRAP). Verkefnin varða vöktun þungmálma og þrávirkra lífrænna efna. Niðurstöður mælinga eru vistaðar í sameiginlegum evrópskum gagngrunni (European Monitoring and Evaluation Programme / EMEP) og hýsir Norska loftrannsóknastofnunin (NILU) gagnagrunna efnamælinga (Chemical Coordinating Centre / CCC).

Veðurstofa Íslands annast umsýslu verkefnanna og fer söfnunin í dag fram að  Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Umhverfisvöktun hefur verið rekin að Stórhöfða frá árinu 1995 en þar fer fram vöktun á styrk mengandi efna í úrkomu og andrúmslofti fyrir ýmis alþjóðleg verkefni. 

Styrkur þungmálma er mældur í bæði úrkomu- og svifrykssýnum. Svifryki er safnað í hálfan mánuð hverju sinni en uppsafnaðri úrkomu er safnað vikulega. Hin síðari ár hafa vikuleg úrkomusýni verið efnagreind sem mánaðarsýni. Svifrykssýnum hefur verið safnað frá 1995 en úrkomusýnum frá 1999, þar af frá Stórhöfða frá 2001. Einnig voru gerðar mælingar í Reykjavík um langa hríð. Auk ofan nefndrar vöktunar eru til eldri sýnaraðir og er nánar fjallað um þær á heimasíðu Veðurstofu Íslands. Sýnin eru efnagreind hjá Norsku loftrannsóknastofnuninni (NILU) en Veðurstofan annast úrvinnslu og útreikninga sem og gagnaskil í sameiginlegan evrópskan gagnagrunn (CCC) og OSPAR. Eftirfarandi þungmálmar eru mældir: Pb, Cd, V, Cr, Mn, Fe, Ni, Cu, Zn, As, Al og Hg auk ýmissa aðalefna sem eru nauðsynleg til úrvinnslu gagnanna þ.e. Cl, NO3 og SO4, Na, K, Ca, Mg, NH4.

Mældur er styrkur fjölmargra þrávirkra lífrænna mengunarefna (persistent organic pollutants) í úrkomu- og loftsýnum. Vöktun þrávirkra lífrænna efna að Stórhöfða hófst 1995. Efnagreining og úrvinnsla niðurstaðna fer fram á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Veðurstofan annast gagnaskil í sameiginlegan evrópskan gagnagrunn (EMEP) en þaðan eru gögnin m.a. notuð í verkefni á vegum Norðurheimskautsráðsins, AMAP (Arctic Monitoring and Assessment Program) og í samræmi við Stokkhólms samninginn um þrávirk lífræn efni (Stockholm convention). Að jafnaði eru ýmsar afleiður eftirfarandi efna greind: HCH, DDT, HCB, Dieldrin, Klórdan, PCB, PBDE og Toxafen.