Saga og menning

Surtarbrands er víða getið í ferðabókum og Íslandslýsingum frá því fyrr á öldum. Hann var talsvert notaður til heimabrúks þó hann væri ekki sérlega gott eldsneyti. Hann logaði illa enda frekar steinefnaríkur. Vinnsla á honum jókst mikið í heimsstyrjöldinni fyrri þegar verulegs kolaskorts tók að gæta. Hún gekk þó misjafnlega en einna best á Skarði á Skarðsströnd og á Tjörnesi, þar voru tvær námur þegar best lét. Menningarminjar Surtarbrandsgils eru fyrst og fremst af heimildalegum toga.

Surtarbrandurinn í gilinu var fyrst rannsakaður af Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni árið 1753 og munu það vera fyrstu rituðu heimildirnar um fornt gróðurfar Íslands. Síðan hafa fleiri náttúruvísindamenn rannsakað minjarnar og aukið við þekkingu á því hvaða tegundir var um að ræða og hvernig var umhorfs á Íslandi fyrir tólf milljónum ára.