Umhverfistofnun - Logo

Eftirlitsmælingar

Í reglugerð um fráveitur og skólp eru sett fram losunarmörk (töflu 1 og 2 í viðauka 1) sem hreinsað skólp frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli skal standast, skv. 21. gr. er varðar tveggja þrepa hreinsun, 22. gr. er varðar hálendi og köld svæði og 23. gr. um frekari hreinsun en tveggja þrepa. Mæla á magn BOD5, COD og svifagna auk köfnunarefnis og fosfórs ef svæðið hefur verið skilgreint viðkvæmt. Auk þess geta komið til mælingar á öðrum efnum s.s. sýklum, lyfjaleifum og örplasti sé þörf á því.

Fyrir eins þrepa hreinsun þarf skv. 14 tölulið 3. gr. að ná fram lækkun á BOD5 um 20% og að heildarmagn svifagna í skólpi lækki um að minnsta kosti 50%.

Í öllum tilfellum þarf síðan að uppfylla kröfur um gæðamarkmið (fylgiskjal 1.A. í reglugerð), það er að við útrásir þar sem fráveituvatn er leitt í viðtaka sem ekki njóta sérstakrar verndar má hvergi vera:

  • Set eða útfellingar.
  • Þekjur af rotverum (bakteríur og sveppir).
  • Olía eða froða.
  • Sorp eða aðrir aðskotahlutir.
  • Efni sem veldur óþægilegri lykt, lit eða gruggi.

Auk þess eru sett fram umhverfismörk fyrir saurmengun yfirborðsvatns utan þynningarsvæða vegna holræsaútrása (fylgiskjal 2. í reglugerð um fráveitur og skólp).

Eins og fram hefur komið ber heilbrigðisnefnd ábyrgð á útgáfu starfsleyfis vegna fráveitna sveitarfélaga. Heilbrigðisnefnd setur í starfsleyfi, kröfur um eftirlit í samræmi við umfang fráveitunnar og að gerðar séu mælingar á fráveituvatni og losun frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli. Einnig að gerðar séu mælingar á viðtaka sem skólp er losað í.

Í reglugerðinni er valfrjálst hvort notuð eru losunarmörk fyrir hreinsun eða styrk. Heilbrigðisnefndin ákveður í starfsleyfi hvor umhverfismörkin eiga að gilda. Ef valið er að miða við hámarksstyrk er nóg að taka eitt sýni af skólpi eftir hreinsun. Ef valið er að miða við lágmarkshreinsun skal taka sýni fyrir og eftir hreinsun. Sýni skulu vera blandsýni, tekin yfir sólarhring og skulu miðast við hlutfall flæðis eða sólarhring og vera tekin jafndreift yfir hvert almanaksár. Ef breyta þarf tíðni mælinga getur heilbrigðisnefnd ákveðið það í starfsleyfi fráveitu.

Lágmarksfjöldi sýna á ári skal ákveðinn í samræmi við stærð hreinsistöðvarinnar (sjá töflu). Þegar tekin eru fjögur sýni á ári, þarf aðeins einn mæliþáttur að fara yfir losunarmörkin í hverri sýnatöku svo losunarmörk séu ekki uppfyllt. Hafi rekstraraðilar hreinsistöðvar eða heilbrigðisnefnd hug á að taka fleiri sýni á ári þá eru frekari upplýsingar um það í I. viðauka, töflu 3. Almennt er krafan um töku 24 sýna á ári fyrir hreinsistöðvar sem losa yfir 50.000 p.e.

Tafla 3 í reglugerð 798/1999. Lágmarksfjöldi sýnatöku á ári, miðað við fjölda pe.

Fjöldi persónueininga

Fjöldi sýna sem tekin eru ár hvert

Leyfilegur hámarksfjöldi sýna sem ekki uppfylla settar kröfur

2000 – 9999

12 á fyrsta ári svo 4

2 á fyrsta ári svo 1

10.000 – 49.999

12

2

50.000 og fleiri

24

3

Við eftirlit og mat á mengunarmælingum skal taka mið af D- hluta í viðauka I. Að öðru leyti er vísað í frekari leiðbeiningar í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999, breytt með reglugerð nr. 450/2009.