Snyrtivörur: : Merkingar og innihald andlitslita - Öskudagur

Tilgangur og markmið:

  • Að skoða merkingar og innihaldslýsingu á umbúðum öskudags- og hrekkjavökulita hjá birgjum og söluaðilum í þeim tilgangi að athuga hvort slíkar vörur uppfylli kröfur og takmarkanir gildandi reglugerða um snyrtivörur og breytinga á þeim. Um er að ræða vörur á borð við húðliti og farða, lituð hársprey og hárliti.
  • Að ganga úr skugga um að öskudags- og hrekkjavökulitir séu skráðir í snyrtivöruvefgátt ESB.
  • Að fræða birgja og söluaðila um reglugerðir sem gilda um snyrtivörur og kröfur um merkingar og takmarkanir um innihaldsefni.
  • Að auka neytendavernd.

Framkvæmd og helstu niðurstöður: 

Útbúinn var listi yfir fyrirtæki sem flytja inn öskudag- og/eða hrekkjavökuliti út frá upplýsingum frá Tollstjóra fyrir árið 2014 og á heimasíðum fyrirtækjanna. Farið var í eftirlit til eftirtalinna 7 fyrirtækja og eru 5 þeirra með verslun. Einnig var farið í eftirlit í þá verslun sem er talin hafa mesta hlutdeild á markaði að undanskildum birgjum. Eftirlitið stóð yfir tímabilið 9. – 18. febrúar 2015.

 Birgjar  Verslanir
 Egilsson ehf.(verslun:A4), Reykjavík
 Hagkaup hf. Skeifunni
 Hókus pókus ehf., Reykjavík
 Hagkaup hf. Akureyri
 Ísey ehf., Reykjavík
 
 Afbragðs ehf. (verslun: Partýbúðin), Reykjavík
 
 Penninn ehf., Reykjavík
 
 Sport Hero ehf., Reykjavík
 
 Toys R Us ehf. Akureyri
 

 

Niðurstaða verkefnisins sýnir að lítið var um frávik frá gildandi reglugerðum. Öskudags- og hrekkjavökulitir sem fluttir eru inn frá Evrópu uppfylla nær undantekningarlaust kröfur gildandi reglugerða. Frávikin voru flest á vörum sem fluttar eru inn frá löndum utan EES svæðisins. Algengustu frávikin eru talin upp hér á eftir og voru gerðar kröfur um úrbætur til innflutningsaðila:

 

  • Vara inniheldur bannað paraben. Ekki má selja vörur sem innihalda bönnuð paraben eftir 30. júlí n.k.
  • Á umbúðir vara vantaði upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES svæðisins og geymsluþol.
  • Vara ekki skráð í snyrtivöruvefgátt ESB.

Viðbrögð fyrirtækja við niðurstöðu eftirlits voru í nær öllum tilfellum jákvæð og samskipti og samvinna við Umhverfisstofnun góð. Stór hluti fyrirtækjanna leituðu til sérfræðings stofnunarinnar um nánari upplýsingar um kröfur sem gilda um snyrtivörur og leiðir til úrbóta þegar við átt. Þegar fyrirtækin höfðu sýnt fram á úrbætur var þeim sent bréf um málslok.