Aðgengi og þjónusta

Vestfjarðavegur nr 60 liggur í gegnum friðlandið, fyrir botn fjarðarins og upp Penningsdal yfir Dynjandisheiði. Við Hótel Flókalund eru gatnamót þar sem Vestfjarðarvegur 60 mætir Barðastrandarvegi 62. Breiðafjarðarferjan Baldur kemur að höfn á Brjánslæk, um 2,5 km frá vestari mörkum friðlandins. Næsti flugvöllur er á Bíldudal.

Sumarhótel, bensínafgreiðsla og tjaldsvæði með hreinlætisaðstöðu er í Flókalundi. Þar er einnig orlofsbyggð og steypt sundlaug sem er opin á sumrin. Hellulaug er um 300 m austan af Flókalundi, þar er bílastæði. Bílastæði er einnig að finna í Vatnsdalsbotni, á Hörgsnesi og miðja vegu milli Eiðisár og Vatnsdalsár. Við Pennu og við rætur Þingmannaheiðar er einnig pláss fyrir nokkra bíla, á báðum stöðum eru áningarborð. Veiðileyfi í Vatnsdalsá og Vatnsdalsvatn eru seld í Flókalundi og á Brjánslæk. Í friðlandinu er ekki móttaka fyrir sorp.

Á sumrin starfa landverðir í friðlandinu. Hlutverk þeirra er að gæta þess að ákvæði laga um náttúruvernd, sérlaga, verndaráætlana og annarra stjórnvaldsfyrirmæla séu virt, koma á framfæri upplýsingum og fræðslu til ferðafólks um náttúru og sögu svæða auk þess að sjá um daglegan rekstur og viðhald.