Náttúra og jarðfræði

Geysir í Haukadal er einn frægasti goshver veraldar og hefur örnefnið Geysir gefið goshverum nafn á erlendum tungumálum (e. geyser) auk þess sem hverahrúður er oft kallað „geyserite“.

Geysissvæðið liggur í vesturgosbelti Íslands sem útskýrir jarðhitavirkni svæðisins. Kenningar hafa verið um að á svæðinu hafi verið megineldstöð en líparít hefur fundist í kringum svæðið, t.d. í Laugarfelli (187 m) sem rís yfir hverasvæðinu. Háhitasvæðið þekur u.þ.b. 3 km2 með fjölmörgum hverum en sjálft Geysissvæðis er aðeins lítill hluti þess. Á svæðinu eru fjölmargir hverir utan Geysis, þar er Strokkur sá þekktasti en einnig má nefna Konungshver, Blesa, Litla Geysi, Óþerrisholu, Sísjóðandi og fleiri.

Geysir sjálfur hefur verið misvirkur í gegnum tíðina en skjálftavirkni á Suðurlandi hefur stundum hreyft við honum. Eftir Suðurlandsskjálftana árið 2000 lifnaði aftur yfir Geysi um tíma en síðan þá hefur hann legið í dvala. Síðast er vitað til þess að hann hafi gosið árið 2016.

Undanfarin ár hefur því Strokkur verið helsta aðdráttarafl ferðamanna. Virkni hans hefur einnig verið sveiflukennd í gegnum árin en Strokkur hagar sér samt ekki alveg eins og Geysir þar sem hann gýs litlum en kröftugum gosum en þar sem gosrásin tæmist ekki á milli gosa (annað en hjá Geysi) þá fyllist gosrásin fljótt aftur og ekki líður langur tími á milli gosa. Gosin í Strokki geta orðið allt að 30 m há.

Fjölmargir aðrir hverir eru á svæðinu og má þar nefna: Blesi, Fata, Seyðirinn, Sóði, litli Geysir, Óþerrishola, Litli Strokkur, Vigdísarhver, Smiður, Móri, Sísjóðandi, Konungshver, Þykkvuhverir

Á Geysissvæðinu er hægt að sjá fjölbreyttan gróður. Birkitré setja svip á landslagið en á svæðinu er líka að finna fjölda hitakærra tegunda háplantna, þ.á.m. blákolla, blóðberg, flagahnoðri, grámygla og selgresiEinnig má finna tvær jarðhitategundir háplantna sem skráð hafa verið á válista sem tegundir í nokkurri hættu, þ.e. laugadepla (veronica anagallis-aquatica) og naðurtunga (ophioglossum azoricum). Fyrir utan háplöntur vaxa nokkrar jarðhitategundir mosa á Geysissvæðinu.