Staða fráveitumála

Á tveggja ára fresti tekur Umhverfisstofnun saman upplýsingar um stöðu skólpmála á Íslandi, í samstarfi við heilbrigðiseftirlit, sveitarfélög og rekstraraðila fráveitna. Heilbrigðisnefndir um allt land taka saman upplýsingar hvert frá sínu svæði og skila þeim til Umhverfisstofnunar. Skoða leiðbeiningar um skil upplýsinga  í rafræna gagnagátt Umhverfisstofnunar.

Upplýsingunum er síðan skilað til Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA).

Sveitarfélög bera ábyrgð á uppbyggingu fráveitna og skulu koma á fót og reka sameiginlega fráveitu í þéttbýli, sbr. lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. 

Eigendur fráveitna eru ábyrgir fyrir því að losun frá þeim sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp með síðari breytingum og skilyrði sem sett hafa verið í starfsleyfi viðkomandi fráveitu. 

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru starfsleyfisveitendur fyrir fráveitur, útrásardælustöðvar og skólphreinsistöðvar, sbr. reglugerð nr. 550/2008 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með fráveitum og skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að skólp verði hreinsað í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp. Heilbrigðisnefndir skulu annast eftirlit með fráveituvatni og losun frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli nema þær feli rekstraraðila það í starfsleyfi (innra eftirlit). Nefndirnar geta beitt þvingunarúrræðum til að knýja fram ráðstafanir samkvæmt reglugerðinni í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.