Markaðseftirlit með sæfivörum með áherslu á flokkun og merkingu

Fyrri hluti

Formáli

Markmið efnalaga nr. 61/2013 er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu efnavara. Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar samkvæmt efnalögum er að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablanda sem falla undir lögin.

Sæfivörur er stór hópur efnavara, sem skiptist í fjóra aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur. Þessir aðalflokkar skiptast síðan í samtals 22 vöruflokka.

Í þessu verkefni var farið í eftirlit með sæfivörum á markaði, sbr. hlutverk Umhverfisstofnunar með framkvæmd efnalaga og reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. Sérstök áhersla var lögð á að skoða vörur sem tilheyra vöruflokkunum; viðarvarnarefni, gróðurhindrandi vörur, nagdýraeitur og skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum, m.t.t. hvort vörurnar uppfylltu skilyrði um markaðsleyfi og hvort merkingar varanna væru í samræmi við gildandi reglur.

Tilgangur og markmið

Samkvæmt efnalögum er Umhverfisstofnun falið að hafa eftirlit með markaðssetningu sæfivara. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert áætlun um áhættumat virkra efna til notkunar í sæfivörum. Áhættumati allra virkra efna á að vera lokið í árslok árið 2024. Í kjölfar áhættumats er virkt efni annað hvort leyft til notkunar í sæfivörum eða bannað. Ef sæfivara inniheldur virk efni sem hafa lokið áhættumati þarf hún markaðsleyfi á Íslandi svo að hún megi vera á markaði. Margar vörur eru nú þegar með markaðsleyfi og enn fleiri munu þurfa markaðsleyfi á komandi árum.

Með hliðsjón að ofangreindu voru sett fram eftirfarandi markmið með eftirlitinu:

  • Að skoða hvort krafa um markaðsleyfi sé uppfyllt, sbr. 1, mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012, ef við á.
  • Að skoða hvort kröfur um flokkun, pökkun og merkingu séu uppfylltar, sbr. 69. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012, ef vara er með markaðsleyfi.
  • Að skoða hvort vara innihaldi, skv. innihaldslýsingu, bönnuð virk efni, sbr. 1. gr. reglugerðar 878/2014 ásamt breytingum
  • Að skoða hvort kröfur um merkingu og umbúðir séu uppfylltar, sbr. reglugerð nr. 415/2014 (CLP), ef vara þarf ekki að vera komin með markaðsleyfi þar sem áhættumati virka efnisins er ekki lokið.

Framkvæmd
Í þessum fyrri hluta verkefnisins fóru eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar í eftirlit hjá 6 fyrirtækjum, sem setja sæfivörur á markað. Áætlað er að seinni hluti verkefnisins fari fram á árinu 2019 og þá verði farið í eftirlit hjá öðrum 6 fyrirtækjum. Eftirlitsþegar koma fram í meðfylgjandi töflu.


Eftirfarandi eftirlitsþegar féllu undir umfang verkefnisins:

Eftirlitsferðir fóru fram á tímabilinu 18. apríl 2018 til 24. ágúst 2018. Við komu á staðinn var eftirlitsþega afhent tilkynning um eftirlitið þar sem  verkefninu og markmiðum þess er lýst. Fulltrúi fyrirtækisins var viðstaddur og staðfesti með undirritun sinni að eftirlitið hafi farið fram.

Niðurstöður

Samtals voru skoðaðar 63 sæfivörur og þar af fundust eitt eða fleiri frávik við 41 þeirra, sem þýðir að tíðni frávika er 65%. Fjórar vörur uppfylltu ekki skilyrði um markaðsleyfi og þar af er beðið eftir staðfestingu um að sótt hafi verið um markaðsleyfi fyrir einni þeirra. Ein vara var tekin úr sölu að frumkvæði birgis og stofnuninni send staðfesting á förgun hennar. Markaðssetning hinna tveggja varanna var stöðvuð tímabundið og fyrirtækjunum veittur frestur til þess að sækja um markaðsleyfi. Sæki fyrirtæki ekki um markaðsleyfi innan tiltekins frests verður markaðssetning varanna stöðvuð varanlega. Í hvorugu tilvikinu er fresturinn liðinn en bæði fyrirtækin hafa þó upplýst nú þegar að ekki verði sótt um markaðsleyfi fyrir vörunum, svo þær munu hverfa af markaði.
Frávik vegna ófullnægjandi merkinga fundust á 40 vörum sem skiptust þannig að  4 vörur með markaðsleyfi uppfylltu ekki kröfur um merkingu skv. reglugerð nr. 528/2012 um sæfivörur og 36 vörur sem bjóða má fram á markaði án markaðsleyfis uppfylltu ekki kröfur um merkingar skv. reglugerð nr. 415/2014 (CLP). Merkingar þriggja vara voru lagaðar áður en eftirlitsskýrsla var send út og tvær vörur voru teknar af markaði af birgi og send staðfesting  um förgun þeirra til Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun óskaði eftir afriti af uppfærðum merkimiðum fyrir 32 vörur. Fyrirtækin hafa brugðist við og sent afrit af uppfærðum merkimiðum fyrir 23 vörum en af þeim reyndust einungis 15 vera fullnægjandi og því er beðið eftir endurbættum tillögum að merkingum fyrir 8 vörur. Þá eiga enn eftir að berast tilllögur að merkingum fyrir 6 vörum en frestir til að skila þeim eru ekki liðnir. Afrit af uppfærðum merkimiðum mun ekki berast vegna þriggja vara, sem hafa nú þegar verið teknar úr sölu.