Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár

Tillaga að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í samræmi við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Á framkvæmdaáætlun eru skráðar þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun næstu fimm árin.

Upplýsingar um verndargildi svæðanna, mögulegar verndarráðstafanir og væntanlegar takmarkanir sem tillagan gæti haft í för með sér eru að finna inni á síðum svæðanna hér að neðan.

Frestur til að skila athugasemdum var til og með 19. apríl 2024 og var unnt að skila þeim inn skriflega á kynningarsíðum svæðanna hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða bréfleiðis til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Umhverfisstofnun vinnur nú að því að taka saman umsögn um framkomnar athugasemdir og mun skila til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Umhverfisstofnun gerir einnig þeim aðilum, sem gera athugasemdir við tillöguna, grein fyrir umsögn sinni um þær skv. 3. mgr. 36. gr. ofangreindra laga.

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Opnir kynningarfundir

Umhverfisstofnun boðaði til opinna kynningarfunda vegna tillögunnar á kynningartíma.

  • Tillögusvæðið Hengladalir, miðvikudaginn 6. mars kl. 16:00 á skrifstofu Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, fundarsalur 5. hæð.
  • Almennur kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, á skrifstofu Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, fundarsalur 5. hæð og í streymi. mánudaginn 11. mars kl. 16:30. Hlekkur á streymi
  • Tillögusvæðin Tjörnes og Norður-Melrakkaslétta, Félagsheimilið Sólvangur á Tjörnesi, þriðjudaginn 12. mars kl 16:00.
  • Tillögusvæðið Norður-Melrakkaslétta, Félagsheimilið Raufarhöfn, miðvikudaginn 13. mars kl. 17:00.

Frekari upplýsingar veitir Ingibjörg M. Bjarnadóttir, sérfræðingur, ingibjorgb@umhverfisstofnun.is, sími 591-2000.