Snæfells- og Eyjabakkasvæðið

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið var samþykkt sem Ramsarsvæði 2013 sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði.

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið eru innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Auk þess hafa bæði svæðin verið skráð á náttúruminjaskrá (nr. 615 og 616). Í náttúruminjaskrá kemur fram að svæðin eru gróin hálendissvæði og mikilvæg beitilönd heiðagæsa og hreindýra auk þess sem óvenju grösug votlendissvæði með fjölda tjarna er að finna á Eyjabakkasvæðinu, en Eyjabakkasvæðið er eitt umfangsmesta og fjölbreyttasta votlendissvæði á hálendi Íslands. Yfir 30 tegundir fugla hafa sést á svæðinu og í nágrenni þess og af þeim verpa 21 tegund. 

Eyjabakkasvæðið er mjög mikilvægt fellisvæði heiðagæsa á sumrin, en rannsóknir á heiðagæs á svæðinu hafa verið gerðar síðan 1979. Síðan 2004 hefur fjöldi heiðagæsa á svæðinu verið á bilinu 2000-5000 fuglar og árið 2009 var fjöldinn metinn rúmlega 3000 fuglar sem er um 1% af heiðagæsastofninum. Auk þess að vera fellistaður heiðagæsa, verpa þær líka á svæðinu. Aðrir algengir varpfuglar á svæðinu er álft, heiðlóa, lóuþræll og snjótittlingur. Þéttleiki varps hefur verið áætlaður 48,8 pör á hverjum km2. Á Eyjabakkasvæðinu hafa fundist 319 plöntutegundir, en flestar þeirra eru tiltölulega algengar hér á landi.