Friðlýsing Fólkvangs Neskaupstaðar var samþykkt árið 1972 og var fólkvangurinn sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Fólkvangurinn er kjörinn til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu enda landslagið tignarlegt, lífríkið auðugt og jarðmyndanir fjölbreyttar.
Fólkvangar eru svæði sem eru friðlýst sem útivistarsvæði og til almenningsnota í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Markmiðið með friðlýsingu Fólkvangs Neskaupstaðar er að vernda náttúruminjar svæðisins í eins ósnortinni mynd og kostur er.
Ysti hluti fjallgarðsins milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar nefnist Norðfjarðarnípa eða Nípa. Mörk fólkvangsins eru austan í Nípunni frá fjallsegg að sjó, auk þess sem friðlýsingin tekur einnig til grynninga út frá ströndinni.
Nípan er hlaðin úr misþykkum blágrýtishraunlögum sem halla lítillega inn til landsins. Hraunlögin eru víða skorin af berggöngum. Á ströndinni út með Nípu er að finna leifar af berggöngum sem hafa staðið af sér ágang sjávar og mynda stapa skammt frá landi. Brimið hefur einnig víða sorfið skúta á milli hraunlaganna og er Páskahellir þeirra mestur.
Neðsti hjalli Nípunnar, Hagi, er talinn vera gamall brimstallur, meðal annars vegna sléttra og þverhníptra basaltalaga ofan hans og stórgrýtisbjörgin að neðan.
Áður en svæðið var friðlýst var það nýtt til beitar, en eftir 1970 þegar beit var hætt hefur gróðurfar tekið miklum breytingum. Í stað graslendis eru blómjurtir, lyng og víðir nú ríkjandi.
Tegundafjölbreytni er mikil í fólkvanginum og gróðurlendið víða gróskumikið. Í brekkum þar sem snjór hlífir að vetri og skjólgott er að sumri er mikil blómskrúð, en í votlendi eru starir, sef og fífur algengari. Þar sem þurrara er eru grös en einnig lyngmóar og sums staðar dálítið kjarr. Í hömrum og kömbum við sjóinn er að finna saltþolnar plöntur, t.d. skarfakál, burnirót, kattartungu og blálilju. Einkennisjurtir Austfjarða, sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka vaxa allar í fólkvanginum. Einnig hafa þar fundist sjaldgæfar tegundir s.s. villilín, klettafrú, þúsundblaðarós, sifjarsóley, skógfjóla, lyngbúi, hagastör og dúnhulstrarstör.
Fuglalíf í fólkvanginum er fjölskrúðugt. Við Haga og í Nípu er blómleg fuglabyggð, en í sjávarhömrum er varpstaður ýmissa bjargfugla. Fýll og rita eru algeng, en einnig silfurmáfur, svartbakur og lundi. Æðarfugl er við ströndina og dílaskarfar sjást oft, sérstaklega að vetrarlagi. Þá verpa einnig ýmsar tegundir vaðfugla og mófugla á öðrum svæðum í fólkvanginum.
Í fjörunni finnast ýmis smádýr sem tengjast lífríki fjörunnar auk þess sem hrúðurkarl og sniglar eru víða á klettum við ströndina. Á svæðum fjær fjörunni eru svartsniglar og lyngbobbar. Í mógröfum má finna brunnklukkur.
Við Hálsalæk á Neðri Hálsum er að finna rústir brytaskála og sels.
Til að komast í fólkvang Neskaupstaðar er ekið eftir Norðfjarðarvegi nr. 50, þá eftir Egilsbraut, Nesgötu og loks Bakkavegi. Bílastæði er við enda vegarins, en þar hefjast gönguleiðir um fólkvanginn.
Sex merktar gönguleiðir eru um fólkvanginn sem sjá má á gönguleiðakorti.
Athugið að leiðin á Nípukoll er aðeins stikuð að neðsta klettabeltinu, en þaðan er leiðin nokkuð augljós meðfram berggangi gegnum klettabeltin og áfram upp á fjallseggjar.
Fólkvangur Neskaupstaðar var friðlýstur árið 1972 með auglýsingu nr. 333 í Stjórnartíðindum B. Svæðið er í umsjón Fjarðabyggðar.
Fólkvangur Neskaupstaðar var friðlýstur árið 1972. Vinsælt útivistarsvæði í útjaðri bæjarins. Fróðleik um náttúrufar svæðisins hefur verið komið fyrir á lítil skilti meðfram gönguleiðinni.
Stærð fólkvangsins er 318,4 ha.