Fráveita

Markmið reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp er að vernda almenning og umhverfið og koma á samræmdri og kerfisbundinni söfnun, meðhöndlun og hreinsun skólps frá íbúðarbyggð, svo og hreinsun skólps frá tilteknum atvinnurekstri. Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit um allt land bera ábyrgð á að kröfum um fráveitumál sé framfylgt, í samræmi við kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp.

Fráveitur eru öll þau mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar, flutnings eða hreinsunar á skólpi (lagnir, leiðslukerfi, safnræsi og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps). Allt þetta kerfi flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, fyrirtækjum og ofanvatn af yfirborði og götum og hreinsar áður en því er hleypt út í viðtaka (sjó, vatn, ár).

Samkvæmt lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna eiga sveitarfélög að koma á fót og starfrækja fráveitur í þéttbýli, þ.e.a.s. þar sem íbúar eru fleiri en 50 talsins og fjarlægð á milli húsa að jafnaði undir 200 m. 

Í dreifbýli á sveitarfélag að koma fyrir fráveitu þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða atvinnustarfsemi felur í sér losun sem nemur u.þ.b. 50 persónueiningum eða meira á hverja 10 ha. Skyldur þessar gilda hins vegar ekki fyrir fyrrnefnda byggð sem var til staðar fyrir 13. mars 2009, þegar lögin tóku gildi. Ef sveitarfélag nýtir ekki heimildir sínar um að koma á fráveitu í dreifbýli skal landeigandi sjá til þess að skólp sé hreinsað m.a. í samræmi við deiliskipulag.

Krafa er um að lagnir séu aðskildar í ofanvatns- og skólplagnir. Þannig er hægt að koma fráveituvatni í mismunandi farveg eftir því hvernig þarf að hreinsa það. Regnvatn eða ofanvatn af t.d. götum á ekki að vera mengað af sýklum og oft er nægjanlegt að hreinsun á slíku vatni fari fram í settjörnum áður en það er losað út í umhverfið. Í skólpvatni eru aftur á móti örverur sem eru hættulegar heilsu manna og mikið af lífrænu efni sem meðhöndla þarf sérstaklega.

Smelltu á kröfur um hreinsun fráveituvatns  ef þú ert að velta fyrir þér hvernig hreinsun á við.