Öryggi

Um leið og barn kemur inn á leiksvæði heldur það á vit ævintýra, eins langt og hugurinn leiðir það. Við gleðjumst yfir ánægju þeirra af leiknum en á sama tíma er mikilvægt að ekki skapist hætta við leik og starf á leiksvæðum, hvort sem er í eða við leikskóla, skóla, á gæsluvöllum eða á opnum leiksvæðum.

Þegar meta skal hve örugg börn eru á leiksvæðum er litið til heildarmyndar leiksvæðisins, þ.e. hvernig leikvallatækin og leiksvæðin eru hönnuð og hvernig frágangi og viðhaldi á svæðinu er háttað.
En hver ber ábyrgð á öryggismálum leiksvæða? Almenna reglan er að rekstraraðili leiksvæðisins beri þá ábyrgð, sem oftast er sveitarfélag eða einkaaðili ef um einkaskóla er að ræða.

Rekstraraðili skal sjá til þess að:

  • leiksvæði sé skoðað reglulega m.t.t. augljósrar hættu sem getur skapast, s.s. skemmdir á leiktækjum og yfirborðsefnum vegna skemmda, notkunar eða veðurs. Slíka reglubundna yfirlitsskoðun skal framkvæma daglega til vikulega eftir notkun og álagi á leiksvæðinu. Dagleg yfirferð leikskólakennara áður en börn fara út að leika er dæmi um slíka skoðun.
  • svokölluð rekstrarskoðun sé framkvæmd en slík skoðun er ítarlegri en reglubundin yfirlitsskoðun. Þá er t.d virkni og stöðugleiki leikvallatækja skoðuð og getur í kjölfarið þurft að fara út í viðhald og viðgerðir á leiktækjunum og yfirborðsefni á svæðinu. Rekstrarskoðun skal framkvæma a.m.k. ársfjórðungslega af rekstararaðilum eða öðrum þeim er sinna uppsetningu og viðhaldi leikvallatækja fyrir rekstraraðila.
  • aðalskoðun sé framkvæmd einu sinni á ári á leiksvæðinu af faggiltum skoðunaraðila til að staðfesta öryggi leiksvæðisins í heild.

Er hugað að öryggi leiksvæðisins sem barnið þitt leitar á?

Reglubundnum skoðunum og rekstrarskoðunum er  vel sinnt á flestum leiksvæðum landsins en því miður er ekki það sama að segja um aðalskoðunina. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð ábótavant að óskað sé eftir aðalskoðun á leiksvæðum um land allt. Má nefna að árið 2009 er einungis talið að um 20% leiksvæða á Íslandi hafi verið aðalskoðuð. Hér má finna lista yfir þau leiksvæði sem hlutu aðalskoðun árin 2009 og það sem af er árs 2011. Er leiksvæðið sem barnið þitt notar á þessum listum?

 

Góð ráð:

  • Kannaðu hvort haft er eftirlit með leiksvæðinu sem barnið þitt notar. Ef ekki, gerðu kröfu til rekstraraðila um að slíkt verði gert.
  • Ef kaupa á leiktæki í heimilisgarðinn skal tryggja að leiktækið sé CE-merkt sem tryggir að leiktækið uppfyllir kröfur Evrópusambandsins. Neytendastofa fer með eftirlit með því að leikvallatæki og leiktæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi.