Ormamolta

Ormamolta er jarðgerðaraðferð þar sem ormar, í samlífi við örverur, sjá um niðurbrotið á því lífræna hráefni sem fellur til á heimilinu. Ormamolta er einungis ætluð til að brjóta niður grænt hráefni eins og t.d. matarleifar. Leyndarmálið á bakvið árangursríka ormamoltu eru hraustir ormar. Þeir krefjast ekki mikillar athygli, en það þarf að tryggja jafnt hitastig (10-25 °C), myrkur, gott rakastig og að sjálfsögðu lífrænt hráefni. Það má bæði kaupa eða búa sér til sinn eigin ormabústað og ormarnir sjá um að stýra fjölda sínum í samræmi við stærð heimilis og magn hráefnis sem þeim er gefið. Í íslensku loftslagi er best að staðsetja ormabústaðinn inni, hvort sem það er í eldhúsinu, geymslunni, kjallaranum eða hvar sem hentar.

Orma-bústaðir einkennast einna helst af því að vera með nokkrar hillur eða skúffur. Neðsta skúffan safnar saman vökva sem lekur í gegn eða verður til þegar lífrænt hráefni brotnar niður. Í skúffunum þar fyrir ofan eiga ormarnir heima. Þú getur byrjað með eina skúffu fyrir ormana og þegar hún er full bætt annarri ofan á. Þegar það er gert þarf að tryggja að skúffurnar liggi vel saman svo að ormarnir geti komið sér upp á næstu hæð. Þegar seinni skúffan er full getur þú annað hvort bætt þeirri þriðju við eða víxlað skúffunum. Bráðduglegir ormarnir munu hafa búið til pláss í fyrri skúffunni fyrir meira hráefni.

Hvernig virkar þetta?

Að setja upp ormamoltu

Í íslensku loftslagi er ákjósanlegast að geyma ormamoltuna inni þar sem ormunum og örverunum líður best í um 10-25 °C. Þegar þú hefur valið stað og sett búnaðinn upp býrðu til búsvæði fyrir ormana. Fyrst seturðu svolítið af dagblöðum í efstu skúffuna. Því næst leggurðu kókostrefjar, hreinan rotmassa eða rifinn pappír í bleyti þar til efnið er orðið mjúkt, þá kreistir þú umframvökva úr því og leggur svo ofan á dagblöðin í efstu skúffunni.

Þá er komið að því að koma ormunum fyrir í nýja búsvæðinu sínu og leggja ábreiðu (sérstakt ormateppi, hreinan klút eða dagblað) yfir þá. Leyfðu ormunum að koma sér fyrir á nýja heimilinu í viku áður en þú byrjar að gefa þeim matarleifar heimilisins.

Að fylla á ormamoltu

Flettu klútnum eða dagblaðinu af, bættu við smáskornu lífrænu hráefni og legðu svo ábreiðuna aftur yfir. Byrjaðu á því að setja lítið magn af lífrænu hráefni og þá helst ávöxtum og grænmeti í ormamoltuna. Þegar ormarnir hafa komið sér vel fyrir geturðu byrjað að gefa þeim meiri og fjölbreyttari fæðu.

Að nýta lokaafurðina

Með tímanum mun safnast svolítill vökvi í neðstu skúffuna. Þetta er næringarríkur vökvi sem má blanda með vatni og vökva plöntur heimilisins eða garðinn. Hráefnið sem ormarnir brjóta niður breytist með tímanum í næringarríkan jarðvegsbæti sem þú getur blandað 50/50 við mold og nýtt í ýmiskonar ræktun. Þegar að því er komið leggurðu skúffuna sem mest af ormum er í efst á ormabústaðinn. Því næst fjarlægir þú ábreiðuna og leyfir sól eða sterku ljósi að skína á ormana. Eftir 20 mínútur munu flestir ormarnir hafa skriðið niður í neðri skúffuna til að forðast ljósið. Þá ættirðu að geta tekið gott magn af næringarríkri moltu til nýtingar án þess að fjarlægja of marga orma í leiðinni.

Hvað má fara í ormamoltu?

Það er ágætis þumalputtaregla að skera hráefnið smátt niður áður en þú gefur ormunum það. Það auðveldar þeim að brjóta það niður. Byrjaðu á að gefa þeim leifar af ávöxtum og grænmeti. Þegar ormarnir hafa komið sér vel fyrir geturðu byrjað að gefa þeim aðeins meira af elduðum mat og öðru sem þeir geta brotið niður.

Það er í góðu lagi að setja eftirfarandi í ormamoltu

  • grænmeti
  • ávexti
  • mulda eggjaskurn
  • kaffikorg
  • kaffisíur og tepoka
  • dagblöð og bréfþurrkur
  • þurr lauf og strá

Eftirfarandi má fara í litlu magni í ormamoltu:

  • hrísgrjón
  • brauð
  • eldaður matur
  • hár og neglur

Það sem ekki er æskilegt að setja í ormamoltu:

  • mjög próteinrík hráefni eins og kjöt, fisk, tofu og baunir
  • mikið myglaðan mat
  • bein
  • mjólkurvörur
  • feitan og mjög saltaðan mat
  • sítrusávexti
  • lauk og hvítlauk
  • chilli
  • engifer
  • hunda- og kattasand
  • maíspoka og umbúðir úr lífplasti (PLA-plast)

Hvernig veit ég að allt er í góðu lagi hjá ormunum mínum?

Það er gaman að viðhalda ormamoltu og ef allt er á góðu róli á hún hvorki að lykta illa né laða að sér flugur og sníkjudýr. En eins og með alla jarðgerð er ormamolta lifandi ferli. Komi vond eða mikil lykt frá henni eða flugur fara að láta á sér kræla er það merki um að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þá er gott að gera eftirfarandi:

Flugur eru merki um að lífræna hráefnið hafi farið að rotna áður en ormarnir ná að brjóta það niður, það er að segja ormarnir hafa fengið meira en þeir geta ráðið við eða í of stórum bitum. Best er að gefa ormunum aðeins eins mikið og þeir geta tekið við, skera lífræna hráefnið niður til að auðvelda niðurbrot, dreifa því jafnt yfir yfirborðið þegar það er sett í ormamoltuna og láta það ekki staflast hærra en 3-5 cm.

Til að losna við flugur ef þær hafa komið má losa sig við þær með því að leggja skál með vatni, ediki og örlítið af uppþvottalegi nálægt ormamoltunni yfir nótt.

Fari ormamoltan að lykta illa eða mikið þýðir það venjulega að það er of mikill raki í henni eða sýrustigið hefur farið úr jafnvægi og moltan er orðin of súr. Til að tækla rakann skaltu blanda þurru lífrænu efni eins og dagblöðum, stráum eða þurrum laufum í moltuna. Það hjálpar við að koma jafnvægi á raka og C:N hlutfall í niðurbrotinu. Þú skalt að auki skoða hvort vökvi nái ekki örugglega að leka niður í neðstu skúffuna og að það séu ekki neinir þykkir hnausar af matarafgöngum í moltunni.

Til að tækla sýrustigið getur þú dreift svolitlu af kalki, ösku eða mulinni eggjaskurn yfir moltuna til að gera hana aðeins basískari. Þetta má gera reglulega jafnvel þó ormamoltan lykti ekki.

Ef lyktin fer ekki skaltu minnka það magn af lífrænu hráefni sem þú setur í moltuna, hræra aðeins í yfirborðinu og auka loftflæðið.

Komist flugnamaðkar í ormamoltuna er það merki um að kjöt og/eða mjólkurvörur hafi komist í hana. Best er að leggja brauðsneið í bleyti í mjólk og setja hana svo í moltuna yfir nótt. Morguninn eftir ættu maðkarnir að hafa komið sé fyrir í brauðsneiðinni svo þú ættir að ná þeim öllum í burtu með því að fjarlægja hana.

Góð ráð fyrir árangursríka ormamoltu

Það er ágætt að finna stað fyrir ormabústaðinn þar sem ekki skín sól á hann til að halda hitastiginu eins jöfnu og mögulegt er.

Ef þig langar að leggja rækt við ormamoltu en meira af brúnu og grænu hráefni fellur til af heimilinu er lítið mál að vera með t.d. bæði ormamoltu og bokashi eða ormamoltu og loftháða jarðgerð

Ormarnir geta lifað í um mánuð án þess að þú gefir þeim hráefni að moða úr. Ef þú ert að fara í frí í lengri tíma er gott að setja vel af votum dagblöðum í moltuna og þá ættu ormarnir að hafa það ljómandi fínt á meðan þú ert í burtu.

Þú getur geymt vökvann sem safnast í neðstu skúffuna í gler- eða plastdalla þangað til þú hyggst nýta þá. Ekki gleyma að merkja dallana svo þú endir ekki óvart á því að fá þér sopa.

Fari eitthvað úrskeiðis er versta mögulega afleiðingin ekki verri en svo að þú þurfir að byrja upp á nýtt. Það má gera mistök, ef eitthvað er þá er það besta leiðin til að læra.

Hentar ormamolta mér?

Ormamolta er ákjósanlegur kostur ef

  • Þú býrð á heimili þar sem ekki mikið að lífrænu hráefni fellur til
  • Þú býrð á litlu heimili en svo heppilega vill til að ormamoltan er ekki plássfrek
  • Þú hefur ekki aðgang að garði og þarft ekki að jarðgera brúnt hráefni

Ormamolta er ekki ákjósanlegur kostur ef

  • Mikið af próteinríkri fæðu (t.d. kjöt, fiskur, tofu og mjólkurvörur) falla til á heimilinu
  • Mikið af chilli, engifer, hvítlauk og lauk falla til á heimilinu
  • Þú býrð að miklu af brúnu hráefni sem þú þarft að jarðgera