Stök frétt

Mynd: Lára Björnsdóttir
Unnið hefur verið að því um nokkurt skeið að kortleggja hina merku Helgustaðanámu í Fjarðabyggð með þrívíddarskönnun. Náman er silfurbergsnáma staðsett í landi Helgustaða í Reyðarfirði og er ein merkasta og frægasta silfurbergsnáma í heimi þaðan var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar

Náman var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og hefur Umhverfisstofnun verið með umsjón með námunni. Lára Björnsdóttir, svæðissérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, hefur meðal annars haft eftirlit með námunni, aðgengi og fræðslu. Ein helsta áskorun Helgustaðanámu er aðgengi að henni sökum þrengsla, bleytu og myrkurs. 
Að frumkvæði Umhverfisstofnunar var því leitað til Hafþórs Snjólfs Helgasonar, starfsmanns EFLU, og hann fengin til að skanna alla kima námunnar í þrívídd. Verkefnið, sem er mjög umfangsmikið, veitir öllum rafrænan aðgang að námunni og sinnir því mikilvægu fræðsluhlutverki en hjálpar einnig til við eftirlit og öryggi námunnar. 
Með nýrri tækni er verið að umbylta möguleikum fólks til að upplifa námuna sem opnar allskyns möguleika gagnvart fræðslu, kynningarstarfi, ferðaþjónustu, öryggismálum og betra eftirliti með þessu einstaka náttúrufyrirbæri Íslands.  

Komdu í þrívíddarferðalag um Helgustaðanámu